DV dæmt fyrir meiðyrði

DV var í gær í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmt fyrir meiðandi ummæli í garð Jóns Þorsteins Jónssonar með fréttaflutningi um ólögmætan flutning Jóns Þorsteins á fjármagni út úr landinu dulbúnum sem lánsviðskiptum. Alls eru dæmd dauð og ómerk nokkur ummæli á forsíðu og inni í blaðinu. Er Ingi Freyr Vilhjálmsson höfundur fréttarinnar og er hann dæmdur sem höfundur hennar fyrir það sem birtist inni í blaðinu, en Reynir Traustason sem ábyrgðarmaður umfjöllunar á forsíðu. Alls eru Jóni Þorsteini dæmdar 300.000 kr í miskabætur (10x minna en farið var fram á) og þeir DV menn þurfa að greiða rúmlega 1,3 milljón í málskostnað og standa straum af 400 þúsund króna kostnaði vegna birtingar dómsins í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Fram kemur í dóminum að fréttin hafi verið efnislega röng hvað varðaði þessi viðskipti. Athyglisverðir kaflar eru í röksemdafærslu dómarans Kristrúnar Kristinsdóttur þar sem hún ræðir um tjáningarfrelsið og rétt fjölmiðla annars vegar og friðhelgi einkalífsins hins vegar:

"Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur umfjöllun um málefni sem teljast hafa samfélagslega þýðingu, verið játað æ meira svigrúm í jafnvægismati við vernd friðhelgi einkalífs. Umfjöllun um brot gegn lögum um gjaldeyrishöft verður að telja af því tagi. Það verður þó að gera þá kröfu til fjölmiðla að slíkt svigrúm sé þá í raun notað til þess að fjalla um hin samfélagslega mikilvægu málefni. Jákvæðum áhrifum þess að fjölmiðlar hafi í þeim tilvikum aukið svigrúm til að birta ósönnuð ummæli án eftirmála, yrði auðveldlega snúið upp í andhverfu sína, ef það svigrúm er notað til þess eins að heimila fjölmiðlum að fjalla fremur um mennina, sem þeir ætla að almenningur hafi áhuga á að lesa um, en málefnin sem talin eru hafa samfélagslega þýðingu. Stefndu hafa í máli þessu fullyrt að heimildir séu fyrir hendi um stórfellda fjármagnsflutninga úr landi, þó að það hafi reynst vera misskilningur að lánsféð frá stefnanda hafi komið frá Íslandi. Eftir að í ljós kom að stefnandi ætti þar ekki hlut að máli hefur lítið farið fyrir umfjöllun stefndu um þau umfangsmiklu viðskipti í trássi við gjaldeyrishöft, sem stefndu halda fram að verið hafi tilefni umfjöllunar þeirra og þeir hafi heimildir fyrir og sem gæti haft samfélagslega þýðingu að fylgja eftir. Því virðist það fremur hafa verið tilgangur fréttarinnar sem mál þetta snýst um að vekja athygli á stefnanda en gjaldeyrisviðskiptunum."

Sjá dóminn í heild hér