Politiken gefur auglýsingar til að dómsmál komist í Hæstarétt

Dagblaðið Politiken í Danmörku hefur heitið því að gefa stuðnings- og fjáröflunarsamtökum blaðamannsins Jörgen Dragsdahl þrjár ókeypis auglýsingar í blaðinu til að styðja hann í málarekstri fyrir Hæstarétti. Um er að ræða langvinnt mál milli Dragsdahl og Bent Jensen prófessors í sagnfræði, sem sakaði Dragsdahl um að hafa verið KGB njósnari á sínum tíma. Dragsdahl sem starfaði m.a. á vinstri blaðinu Information hefur alfarið hafnað þessu og fór í mál við Jensen. Hann vann málið í undirrétti en tapaði í millirétti og nú er málið semsé á leið til Hæstaréttar, og svo virðist sem margir leggi þunga áherslu á að málið fái afgreiðslu þar. Bæði starfsmenn á Information og nú Ritstjóri Politiken telja mikilvægt að þetta mál og öll umræðan um stöðu fólks gagnvart sagnfræðirannsóknum og ásökunum af þessu tagi fái meðferð fyrir æðsta dómstól landsins og til þess þurfi fjármagn sem bæði Politiken og Starfsmannafélag Information hafa nú lagt í púkkið. Í báðum tilvikum er lögð áhersla á að með þessu sé ekki verið að lýsa yfir stuðningi við annan hvorn aðilann, heldur einungis að tryggja að málið fái afgreiðslu í Hæstarétti.

Sjá einnig hér