Fréttir

Starfsáætlun stjórnar 2015-2016
Tilkynning

Starfsáætlun stjórnar 2015-2016

Á fundi stjórnar Blaðamannafélagsins fyrr í dag fór fram umræða um þau helstu verkefni sem stjórnin vill beita sér fyrir á næstunni, þ.e. það sem eftir er af árinu 2015 og á árinu 2016.  Stjórn skilgreindi sérstakan verkefnalista eða starfsáætlun sem tekur til hinna ýmsu þátta í starfsemi félagsins og  stefnt er á að hrinda í framkvæmd. Hér á eftir er þessi verkefnalisti/starfsáætlun birt:    Starfsáætlun stjórnar 2015-2016   Nýir kjarasamningar eru meginverkefni félagsins á árinu. Kjarasamningar félagsins verði gefnir út ásamt lögum félagsins og reglugerðum sjóða þess. Haldið verði áfram skráningu á einstökum þáttum í sögu félagsins og fram haldið skráningu minja og mynda í eigu þess. Blaðamannaminni, sem er vísir að blaðamannatali hefur verið birt á vef félagsins. Það nær fram til ársins 1960 og verður haldið áfram við skráningu blaðamanna sem hófu störf á tímabilinu 1960-1970. Lokið verði við innréttingar á nýjum fundarsölum í austurenda 3. hæðar Síðumúla 23, sem félagið hefur keypt og lokið við endurbætur á hreinlætis- og eldhúsaðstöðu því tengt. Gefið verði út annað bindi af bókinni Íslenskir blaðamenn sem innifeli viðtöl við blaðamenn sem eru með félagsnúmer 10-20. Kannað verði með útgáfu á úrvali mynda úr fyrstu tíu bókunum af Myndum ársins. Fréttaumfjöllun á heimasíðu félagsins verði áfram aukin um það sem hæst ber í blaðamennsku hér á landi og erlendis. Heimasíðan bjóði upp á allar nýjustu aðferðir sem ný samskiptatækni býður upp á til þess að koma sjónarmiðum félagsins á framfæri út á við og gagnvart félagsmönnum sínum.Félagið stuðli áfram að endurmenntun með öllum tiltækum ráðum, m.a. með þátttöku í ráðstefnuhaldi og með því að halda sérstök endurmenntunarnámskeið um tiltekin efni. Félagið rækti samstarf á alþjóðavettvangi á vegum Alþjóðasambands blaðamanna IFJ, Evrópusambands blaðamanna EFJ og Norræns sambands blaðamanna NFJ og verði vakandi fyrir nýjum áherslum í alþjóðasamstarfi. Lokið verði við að taka saman skrá yfir meiðyrðamál og meiðyrðadóma síðustu 20-25 ára og hún notaður sem grunnur að aframhaldandi starfi félagsins að því að tryggja með öllum ráðum raunverulegt tjáningarfrelsi í landinu. Skráin og dómarnir verði aðgengilegir á heimasíðu félagsins. Geymslur verði byggðar og endurbætur gerðar á útiaðstöðu við bæði orlofshús félagsins í Brekkuskógi. Tekin veri saman skrá yfir fræðilegar ritgerðir sem fjalla um fjölmiðla og blaðamennsku og efni sem skiptir máli sem sem hvað varðar meiðyrði og friðhelgi einkalífs.  
Lesa meira
Kjartan Bjarni Björgvinsson

Námskeið: Upplýsingaréttur almennings

Ástæða er til að vekja athygli fjölmiðlafólks á eftirfarandi námskeiði:  Forsætisráðuneytið, Reykjavíkurborg, Félag forstöðumanna ríkisstofnana og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála kynna námskeiðið:  Upplýsingaréttur almennings: úrlausn lagalegra álitaefna Námskeið haldið fimmtudaginn 5. nóvember 2015, kl. 09.00-13.00 í húsnæði Menntavísindasviðs HÍ, Stakkahlíð, stofu K206 – Klettur. Verð : 15.900 kr. Blaðamenn athugið að hægt er að sækja um styrk í Endurmenntunarsjóð. Umsjónarmaður og fyrirlesari er Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Námskeiðið stendur einnig til boða í fjarnámi fyrir starfsmenn ríkis og sveitarfélaga sem starfa á landsbyggðinni. Sjá meira um skráningu á:  http://stjornsyslustofnun.hi.is/node/923   Markmiðið með námskeiðinu er að þátttakendur öðlist haldgóða þekkingu á því hvaða rétt almenningur á til aðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012. Fjallað verður um það hvenær lögin gilda og hvaða undanþágur eru frá meginreglunni um rétt almennings til aðgangs. Umfjöllunin verður studd raunhæfum dæmum um framkvæmd laganna og þá m.a. vísað til úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dóma Hæstaréttar og álita umboðsmanns Alþingis. Markhópur: • Stjórnendur hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga, sem þurfa að skipuleggja og öðlast yfirsýn um það hvernig ber almennt að vinna úr beiðnum sem berast á grundvelli laganna og hvaða kröfur slíkt gerir til stofnunar þeirra. • Starfsmenn stjórnsýslunnar sem leysa þurfa úr álitaefnum um hvort veita eigi aðgang að upplýsingum. • Fjölmiðlamenn, fræðimenn og allir aðrir sem áhuga hafa á að nýta sér lögin til að kynna sér gögn og upplýsingar í vörslum stjórnvalda.  Á námskeiðinu verður m.a. fjallað um eftirfarandi álitaefni í tengslum við beitingu upplýsingalaga: • Um hvaða starfsemi ríkis og sveitarfélaga gilda lögin? Gilda þau um eignarhald hins opinbera á fyrirtækjum og að hvaða marki? • Hvernig á að setja fram beiðni um aðgang að gögnum og hvaða kröfur geta stjórnvöld gert til forms slíkra beiðna?  • Hvenær mega stjórnvöld að synja beiðnum um upplýsingar? Hver er munurinn á upplýsingum sem stjórnvöld mega en þurfa ekki að láta af hendi samkvæmt lögunum og upplýsingum sem stjórnvöldum er bannað að veita aðgang að? • Hvert geta menn leitað þegar beiðni þeirra um upplýsingar er synjað? • Hvernig eiga stjórnvöld að standa að skráningu mála þannig að upplýsingalögin hafi tilætluð áhrif? Í kennslunni verður að verulegu leyti stuðst við raunhæf dæmi og verkefni þannig að þátttakendur öðlist færni í því að leysa sjálfir úr þeim viðfangsefnum sem koma til kasta þeirra á grundvelli upplýsingalaga.  Kjartan Bjarni Björgvinsson er cand.jur. frá Háskóla Íslands og með meistarapróf frá London School of Economics and Political Science 2006. Kjartan starfaði sem aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis frá árinu 2006 til 2009 og sem lögfræðingur við EFTA-dómstólinn í Lúxemborg frá 2009 til 2015. Kjartan hefur kennt stjórnsýslurétt og opinberan starfsmannarétt við Háskóla Íslands frá 2004. Hann var skipaður héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur í apríl 2015.  
Lesa meira
Frakkland: þriðjungur tilbúin að hætta í faginu

Frakkland: þriðjungur tilbúin að hætta í faginu

Blaðamennska virðist hafa  glatað talsverðu aðdráttarafli sínu í Frakklandi miðað við niðurstöður úr könnun sem gerð var að frumkvæði Sambands blaðamannafélaga þar í landi og stofnunar sem sérhæfir sig í mati á þróun vinnumála.   Könnunin sem byggir á gögnum sem aflað hefur verið allt frá árinu 2010 sýnir að breytingar á störfum blaðamanna hafa lamandi áhrif á starfsánægju og um þriðjungur svarenda kveðst tilbúinn til að hætta í faginu. Skýringar á þessu háa hlutfalli liggja að hluta til í ósk fjölmargra blaðamanna um að geta skotið fleiri stoðum undir fjárhagslega afkomu sína og er þetta hlutfall hæst hjá lausafólki.  En fjölmargt fleira skiptir máli um minni starfsánægju, m.a. miklar breytingar á starfi blaðamannsins sem gerir hlutverk hans óskýrara, bæði hvað varðar almennt hlutverk og faglega sýn og eins í útfærslu hversdagslegra verkefna á ritstjórnum. Nákvæmlega sambærileg könnun er ekki til fyrir íslenska veruleika en  eldri kannanir hafa sýnt að blaðmenn hér eru ánægðir í starfi þrátt fyrir ýmis konar mótlæti. Rétt er að minna á ráðstefnu síðar í vikunni um framtíð miðlunarstarfa þar sem sambærilegir hlutir munu vera til umræðu. Sjá meira hér .   
Lesa meira
Styrkir til verkefna í rannsóknarblaðamennsku

Styrkir til verkefna í rannsóknarblaðamennsku

Journalismfund.eu  hefur ákveðið að veita  til viðbótar reglulegum styrkjum, blaðamanni(mönnum)  styrki til að vinna að viðfangsefnum á tilteknum sviðum eða málaflokkum. Styrkirnir eru til að vinna að umfjöllun á eftirfarandi sviðum:  *Eftirlitsstarfsemi og friðhelgi einkalífs  *Náttúra og umhverfi  *Efnahagur og fjármál (opinber útgjöld skuldir eða spilling  *Hagsmunagæsla, starf  þrýstihópa Journalismfund.eu eru sjálfstæð félagasamtök sem ekki eru hagnaðardrifin, og hafa það að markmiði að styðja við rannsóknarblaðamennsku í Evrópu. Þáttur í þeirri viðleitni er að styrkja rannsóknarblaðamenn í að vinna ýmis konar verkefni.  Umsóknarfrestur um þessa viðbótarstyrki er til 15. nóvember. Hér má sjá meira um þessa styrki  
Lesa meira
Framtíð miðlunarstarfa

Framtíð miðlunarstarfa

Ráðstefna á vegum EGIN (European Graphic/Media Industry Network) og IÐUNNAR fræðslu seturs um framtíð miðlunarstarfa fer fram í Reykjavík þann 22. og 23. október næstkomandi. Þar verður fjallað um breytingar sem eru að verða og hafa orðið í heimi fjölmiðlunar og því starfsumhverfi sem  þessi heimur býður upp á. Innlendir og erlendir fyrirlesarar verða á ráðstefnunni , sem nær yfir tvo daga. Fyrri daginn verða fyrirlestrar og umræður e seinni daginn verða vinnustofur.  Ráðstefnan verður haldin á  Grandhóteli,  Sigtúni 38, í Reykjavík.   Félagar í BÍ geta sótt um verulegar niðurgreiðslu á ráðstefnugjaldi í Endurmenntunarsjóð BÍ.   Dagskrá: Fimmtudagur 22. október 09.00 Opnun ráðstefnu - Anders Mosumgaard formaður EGIN og Hildur Elín Vignir  framkvæmdastjóri IÐUNNAR ávarpa ráðstefnuna. 09.10 Er pappírinn dauður? Eyrún Magnúsdóttir – Morgunblaðið 09.45 Hvernig lifir maður af í miðlunarheimi - Jan Vermoesen – Mediarte, Belgíi 10.20 Stutt tengslahlé 10.45 Samþætting miðlunar og Internetsins - Ragnheiður Magnúsdóttir – Hugsmiðjan 11.15 Framtíðarkröfur til starfsmanna í miðlunargreinum - Erik Stevens, GOC, Hollandi 12.00 Hádegismatur framreiddur á Grand hótel 13.00 Eins manns fjölmiðill - Atli Fannar Bjarkason, Nútíminn 13.30 Innri blaðamaðurinn - Stefan Hrafn Hagalín – Prentsmiðjan Oddi 14.00 Stutt tengslahlé 14.25 Fjölmiðlar og gögn, Hjálmar Gíslason, Qlik 15.00 Hver er framtíð starfsmanna á fjölmiðlum? Pallborð þar sem hópur sérfræðinga ræðir framtíð - starfsfólks á fjölmiðlum. 16.00 Degi eitt lýkur 19.30 EGIN fordrykkur og kvöldverður, Hótel Hilton Nordica. Fundarstjóri Ingi Rafn Ólafsson, Sviðsstjóri prent- og miðlunarsviðs IÐUNNAR Föstudagur 23. október Vinnustofur fara fram í Tækniskólanum - tölvuhúsi. Þær verða byggðar á fyrirlestrum fyrri dags. Skipt verður í hópa og sem vinna í samvinnu við fyrirlesara fyrri dags. 09.00 Vinnustofa 1 09.30 Vinnustofa 2 10.00 Stutt tengslahlé 10.30 Vinnustofa 3 11.00 Vinnustofa 4 11.30 Hádegismatur í Tækniskólanum 12.30 Vinnustaðaheimsóknir 16.00 Degi tvö lýkur Verð : Fullt verð: 39.420 kr Innifalið í verði: Kaffitímar, hádegismatur og kvöldmatur á fimmtudagskvöldi. Skráning á: http://www.idan.is/future-of-media    Ráðstefnan fer fram á ensku      
Lesa meira
Mynd: NewsGuild

BNA: Stéttafélög sækja á

 Bylgja stéttafélagsvæðingar virðist nú fara um ritstjórnir í Bandaríkjunum, einkum og sér í lagi meðal blaðamanna sem vinna mikið í gegnum netið.  Fyrr í vikunni ákvað hópur blaðamanna  eftir kosningar á Al Jazzeera America að gagna til liðs við stéttafélagið NewsGuild í New York sem er aðildarfélag Alþjóða blaðamannasambandsins (IFJ). Áður hafði yfirstjórn fyrirtækisins neitað að viðurkenna umboð félagsins.  Þá hafa hópar ritstjórnarmeðlima á Gwaker, Slaon, ThinkProgress og Vice Media gengið í Writers Guild of America. Auk þessa höfðu blaðamenn á Guardian US hafði gengið til liðs við NewsGuild og á Huffingto Post munu umræður í gangi um að stéttafélagsvæða ritstjórnina.  Sjá einnig hér
Lesa meira
BNA: 5 af hverjum 6 í fréttum eru karlar

BNA: 5 af hverjum 6 í fréttum eru karlar

Í nýrri grein í félagsfræðitímaritinu American Sociological Review  kemur fram að samkvæmt innihaldsgreiningu sem gerð var á meira en 2000 greinum í blöðum, tímaritum og vefsíðum á árabilinu frá 1983-2009  þá séu fimm af hverjum sex umfjöllunum um karla eða um 82%. Bent er á að lágt hlutfall kvenna í fréttum á þessu tímabili megi rekja til tveggja þátta, annars vegar þess hve fjölmiðlar fjalli mikið um fólk í efstu lögum samfélagins og hins vegar til þess hve fáar konur eru í þessum æðstu stöðum.  Sjá meira hér  
Lesa meira
Eru takmörk á tjáningarfrelsinu?

Eru takmörk á tjáningarfrelsinu?

Í dag eru 10 ár liðin frá því að Múhameðsteikningarnar  birtust í  Jótlandspóstinum í Danmörku. Birting teikninganna hefur verið tilefni mikilla umræðna um tjáningarfrelsi og takmörk þess. Í tilefni af því er hér birt um hálftíma  samræða milli tveggja málsmetandi blaðamanna  sem eru leiðandi í umræðunni um tjáningarfrelsið í dag.  Annars vegar er það Aidan White, sem er framkvæmdastjóri Ethical Journalism Network (EJN) og fyrrum framkvæmdastjóri Alþjóðasambands blaðamanna og hins vegar Anette Young sem er blaðamaður og fréttaþulur á frönsku stöðinni France 24 en er upphaflega frá Ástralíu. Samtalið á sér stað í gegnum Skype.   Þessi umræða er liður í umræðutorgi sem EJN stendur fyrir undir yfirskriftinni „Eru einhver takmörk á tjáningarfrelsinu?“  Sjá myndband hér
Lesa meira
Ungt fólk í BNA enn tilbúið að borga fréttir

Ungt fólk í BNA enn tilbúið að borga fréttir

 Þrátt fyrir gríðarlegt flæði ókeypis upplýsinga og fréttaefnis sem ungu fólki stendur til boða í dag þá virðist sem  stór hluti þessa fólks sé enn tilbúið til að borga fyrir það fréttaefni sem það fylgist með. Þannig kemur fram í nýlegri könnun í Bandaríkjunum að um 40% Ameríkana á aldrinum 18-34 ára borgi fyrir að minnsta kosti  hluta af því fréttaefni sem það notar, hvort heldur sem það er í formi dagblaðs, netáskriftar eða rafræns fréttabréfs.  Þessu til viðbótar segja um 13% nýta sér áskrift einhvers annars til að kynna sér fréttir.  Könnun þessi er gerð í verkefninu Media Insight Project sem er samstarfsverkefni  American Press Institute og Associated Press- NORC Center.  Einnig kom í ljós að eftir því sem fólk í þessum aldurshópi var eldra, því líklegra var það til að greiða fyrir fréttaefni.  Sjá einnig hér    
Lesa meira
Paul Stephenson

Minnt á málstofnu um uppljóstrara

Hér með er minnt á að Gagnsæi – samtök gegn spillingu,  ásamt Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála  standa fyrir opinni málstofu í dag, þriðjudaginn 29. september í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands, kl. 16:30-17:30.   Þar mun Paul Stephenson, fyrrum embættismaður breska dómsmálaráðuneytis, halda fyrirlestur um mikilvægi löggjafar um vernd uppljóstrara. Hann hefur sérhæft sig í málefnum uppljóstrara eftir að hann lét af störfum hjá breska dómsmálaráðuneytinu árið 2009. Lögin um verndun uppljóstrara voru sett í Bretlandi árið 1999, en þau lög eru, að hans sögn, eitt helsta framlag Bretlands til þessara mála á alþjóðavísu. Stephenson leiddi starf dómsmálaráðuneytisins á sviði varna gegn spillingu, sem formaður sendinefndar Breta hjá GRECO, spillingarvarnardeild Evrópuráðsins, sem Ísland er einnig aðili að.  Að fyrirlestrinum loknum mun fundarstjóri, Þórunn Elísabet Bogadóttir, aðstoðarritstjóri Kjarnans, stýra fyrirspurnum og umræðum. Málstofan er öllum opin og mun fara fram á ensku  
Lesa meira