Vönduð fjölmiðlaumfjöllun geti dregið úr tíðni sjálfsvíga

Dr. Thomas Niederkrotenhaler, prófessor við Háskólann í Vín og sérfræðing Alþjóðaheilbrigðisstofnuna…
Dr. Thomas Niederkrotenhaler, prófessor við Háskólann í Vín og sérfræðing Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) í sjálfsvígsforvörnum.

Vönduð og fagleg fjölmiðlaumfjöllun getur mögulega komið í veg fyrir sjálfsvíg skv. rannsóknum Dr. Thomas Niederkrotenhaler, prófessor við Háskólann í Vín og sérfræðing Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) í sjálfsvígsforvörnum. Þetta kom fram á fyrirlestri hans á pressukvöldi Blaðamannafélagsins á mánudag 9. September. Að fyrirlestri loknum áttu félagsmenn hreinskiptið samtal við Thomas um ýmsar áskoranir við slíka umfjöllun og samtal um hvernig blaðamenn á Íslandi geti lagt sitt af mörkum í baráttunni til að fækka sjálfsvígum. Eyrún Magnúsdóttir leiddi umræðurnar. Pressukvöldið var haldið í samstarfi við Embætti Landlæknis í tilefni af Gulum September.

Í gegnum tíðina hefur mikið verið fjallað um hvernig fréttir í fjölmiðlum, geti haft aukna tíðni sjálfsvíga í för með sér og er það kallað svokölluð „Werther áhrif" eftir Werther sem tekur líf sitt í skáldsögu Goethe. En fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að mikil umfjöllun um sjálfsvíg í fjölmiðlum geti haft í för með sér svokallaða „hermihegðun." Hættan eykst t.d. ef aðferð eða staðsetningu sjálfsvígs er lýst, fréttir af sama sjálfsvígi eru enduteknar oft eða ef um er að ræða frægan einstakling.

En rannsóknir sýna einnig að fjölmiðlar geti miðlað nýrri þekkingu í sjálfsvígforvörnum og mögulega komið í veg fyrir sjálfvíg t.d. með umfjöllun um fólk sem kemst í gegnum erfið tímabil með því að leita sér hjálpar. Þetta er kallað „Papageno áhrif," eftir karakternum Papageno í Töfraflautu Mozarts sem ætlar að taka eigið líf vegna ástarsorgar en hættir við það þegar þrír karakterar sýna honum ólíkar leiðir til að takast á við sorgina og halda áfram.

Alþjóðaheilbrigðissstofnunin hefur gefið út nýjan leiðarvísi fyrir blaðamenn; „Preventing suicide: a resource for media professionals.” Verið er að þýða og aðlaga leiðarvísinn að íslenskum aðstæðum og verður hann birtur á vef Blaðamannafélagsins og Landlæknis í kjölfarið.

Fyrir þau sem áttu ekki heimangengt á pressukvöldið er hægt að horfa á fyrirlestur Thomas Niederkrotenhaler hér: