Reglugerð varasjóðs

Reglugerð
Varasjóðs Blaðamannafélags Íslands


1. gr. Nafn sjóðsins og heimili

1.1 Sjóðurinn heitir Varasjóður Blaðamannafélags Íslands

1.2 Sjóðurinn er eign Blaðamannafélags Íslands (hér eftir BÍ).

1.3 Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Verkefni sjóðsins

2.1 Að styrkja stöðu félagsmanna þegar þeir eiga í kjaradeilum með því að aðstoða þá fjárhagslega ef til verkfalls eða vinnustöðvunar kemur.

2.2 Að greiða kostnað vegna framkvæmda verkfalls eða vinnustöðvunar.

2.3 Að greiða kostnað vegna kjaramála, s.s. kostnað vegna kjarakönnunar og kjararáðstefnu.

2.3 Að styrkja önnur stéttarfélög sem eiga í kjaradeilum að fengnu samþykki stjórnar BÍ.

2.4 Sjóðnum er heimilt að taka þátt í lögfræðikostnaði sem hlýst af ágreiningi um túlkun og framkvæmd kjarasamninga eða um sérkjör félagsmanna samkvæmt reglum sem sjóðstjórn setur.

2.5 Stjórn sjóðsins er heimilt að veita fé úr sjóðnum til annarra sjóða í eigu BÍ í neyðartilfellum.

3. gr. Stjórn og rekstur

3.1 Stjórn BÍ fer með stjórn Varasjóðs BÍ.

3.2. Stjórn BÍ fer með framkvæmdavald í málefnum sjóðsins milli aðalfunda, ber ábyrgð á rekstri, fjárhag og eigum sjóðsins og tekur ákvarðanir um úthlutanir úr sjóðnum til þeirra verkefna sem talin eru í 2. Gr.

3.3. Sjóðurinn hefur sjálfstæðan fjárhag og skal honum haldið aðgreindum frá fjárhag BÍ og fjárhag annarra sjóða í eigu eða á vegum BÍ.

3.4. Sjóðurinn greiðir allan kostnað sem af rekstri hans leiðir.

3.5. Daglegur rekstur sjóðsins skal vera á skrifstofu BÍ.

4. gr. Tekjur og ávöxtun eigna

4.1. Tekjur sjóðsins eru:

4.1.1 Framlag úr Félagssjóði BÍ samkvæmt ákvörðun aðalfundar hverju sinni.

4.1.2 Vaxtatekjur og aðrar fjármagnstekjur.

4.2 Eignir sjóðsins skulu varðveittar í traustum verðbréfum og bankainnstæðum. Sjóðnum er óheimilt að kaupa fasteignir og taka eða veita lán.

4.3 Stjórn sjóðsins er heimilt að fela utanaðkomandi aðila ávöxtun hans.

5. gr. Ársreikningur og endurskoðun

Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Ársreikningur sjóðsins skal endurskoðaður af skoðunarmönnum BÍ og löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarstofu. Hann skal lagður fram samhliða reikningum BÍ.

6. gr. Slit sjóðsins

6.1. Nú er BÍ lagt niður án þess að annað sameiginlegt félag blaðamanna komi í þess stað og skal sjóðnum þá slitið. Eignir sjóðsins skulu þá renna til fullgildra félagsmanna í réttu hlutfalli við fjölda þeirra.

6.2 Einstaklingar sem segja sig úr BÍ eða uppfylla ekki lengur aðildarskilyrði eiga ekki tilkall til eigna sjóðsins.

7. gr. Breytingar á reglugerð

7.1. Breytingar á reglugerð þessari öðlast ekki gildi nema þær hafi verið samþykktar á aðalfundi BÍ. Um atkvæðagreiðslu um breytingar á reglugerðinni á aðalfundi BÍ gilda sömu reglur og um lagabreytingar.

8. gr. Nánari starfsreglur

8.1 Stjórn BÍ setur nánari starfsreglur skv. reglugerð þessari.

9. gr. Gildistaka

9.1. Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.


Samþykkt á framhaldsaðalfundi BÍ 4. september 2024