Pressukvöld um tilhæfulausa rannsókn á blaðamönnum

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, skrifaði undir afsökunarbeiðni Samherja í kjölfar fré…
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, skrifaði undir afsökunarbeiðni Samherja í kjölfar fréttaflutnings af skæruliðadeild Samherja. Mynd/samsett úr auglýsingu sem Samherji birti í fjölmiðlum og mynd af Þorsteini Má af vefsíðu Samherja.

Blaðamennirnir sex, sem haft hafa réttarstöðu sakbornings í allt að tvö og hálft ár vegna rannsóknar lögreglu tengdri skrifum á fréttum um Samherja, mæta í spjall á Pressukvöldi BÍ, þriðjudaginn 8. október kl. 20. Einnig mætir lögmaður BÍ í málinu, Flóki Ásgeirsson.

Líkt og fram kom í yfirlýsingu stjórnar BÍ var aldrei grundvöllur fyrir rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á blaðamönnunum sex enda beindist hún að þeirri háttsemi þeirra að taka við upplýsingum frá heimildarmönnum um samfélagslega mikilvæg málefni og miðla þeim til almennings með ábyrgum hætti. Í því felst ekki refsiverð háttsemi blaðamanna heldur þvert á móti stjórnarskrárvarin frumskylda blaðamanna í lýðræðislegu þjóðfélagi. Auk þeirra beinu og verulegu áhrifa sem rannsóknin hefur haft á líf og störf þeirra blaðamanna sem í hlut áttu hefur hún skapað réttaróvissu um störf allra starfandi blaðamanna á Íslandi og haft víðtæk fælingaráhrif.

Rætt verður um hvaða áhrif rannsóknin hafi haft á þá sex blaðamenn sem hafa haft réttarstöðu sakbornings í allt að tvö og hálft ár fyrir það eitt að sinna starfi sínu, hvaða áhrif málið hafi haft á aðra blaðamenn, stéttina í heild sinni, tjáningarfrelsi og fjölmiðlafrelsi? Einnig ræðum við hvers vegna blaðamenn njóti ríkari verndar í störfum sínum samkvæmt lögum en almennir borgarar og hvers vegna ekki ríki skilningur á sérstöðu og mikilvægi blaðamanna hjá íslenskum stjórnvöldum líkt og málin sanna.

Samtalinu stýrir Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður BÍ. Veitingar verða í boði.