- Félagið
- Faglegt
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Sigurvegari pólsku kosninganna um síðustu helgi, flokkurinn Lög og réttur (PiS), hefur á stefnuskrá sinni að setja sérstakar reglur um blaðamenn og búa til „nýtt fjölmiðlaskipulag“ í landinu.
Flokkurinn útlistar þessar hugmyndir í stefnuskrá sinni sem kynnt var fyrir kosningarnar, en þar kemur fram að þar sem blaðamenn séu stétt sem þurfi á trausti almennings að halda sé eðlilegt að um þá gildi sérstakar reglur t.d. um menntun og aðgang að fagstéttinni, líkt og gildir um aðra faghópa s.s. heilbrigðisstéttir og lögfræðinga. Í stefnuskránni eru líka hugmyndir um að afnema umdeilt ákvæði í pólskum hegningarlögum sem heimila að fangelsa blaðamenn fyrir meiðyrði gagnvart einstaklingum.
Mogens Blicher Bjerregård, forseti Evrópusambands blaðamanna, er lítt hrifinn af því að setja slíkar reglur um blaðamenn. „Með þessari tillögu sem kom fram í kosningastefnuskránni um að regluvæða blaðamannastéttina er í raun verið að binda endi á fjölmiðlafrelsi,“ segir hann. „Blaðamennska er frjálst fag. Allar tilraunir til að gefa úr starfsleyfi fyrir blaðamenn eða setja upp hvers konar takmarkanir á hverjir geta orðið blaðamenn, ganga gegn fjölmiðlafrelsi. Ég hef áhyggjur af þessu,“ segir hann enn fremur. Það er skoðun Bjerregård að skylda stjórnvalda felist í að styðja skilyrðislaust við frelsi fjölmiðla, en hins vegar sé það skylda blaðamanna og fjölmiðlanna að tryggja siðferðisviðmið og sjálfseftirlit. Slíkt sé ekki verkefni stjórnvalda. „Sem formaður Evrópusambands blaðamanna ráðlegg ég eindregið pólskum stjórnvöldum og stjórnmálaflokkum frá því að regluvæða blaðamennskuna, en viðurkenna þess í stað að fjölmiðlar eigi að vera frjálsir, gagnrýnir, rannsakandi og hafa fullan aðgang að upplýsingum,“ segir Mogens Blicher Bjerregård