Blaðamannaverðlaun 2018 afhent

Verðlaunahafar ásamt þeim sem fengu tilnefningu til verðlaunanna.
Verðlaunahafar ásamt þeim sem fengu tilnefningu til verðlaunanna.

Ragnheiður Linnet, Mannlífi, Freyr Rögnvaldsson og Steindór Grétar Jónsson, Stundinni, Aðalheiður Ámundadóttir, Fréttablaðinu, og Þórður Snær Júlíusson eru handhafar verðlauna í hinum fjórum flokkum Blaðamannaverðlauna BÍ. Verðlaunin voru veitt í Blaðamannaklúbbnum, félagsheimili blaðamanna í dag.  Ragnheiður fékk verðlaun fyrir viðtal ársins 2018, Freyr og Steindór fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins 2018, Aðalheiður fyrir umfjöllun ársins 2018 og Þórður Snær hlaut blaðamannaverðlaun ársins 2018. Hér á eftir fer yrirlit bæði yfir þá sem tilnefndir voru í ölum flokkunum fjórum annars vegar og rökstuðnings dómnefndar fyrir vali á hverjum verðlaunahafa fyrir sig hins vegar.

 Viðtal ársins

Tilnefnd voru:

Jóhann Páll Jóhannsson, Stundinni.  Fyrir viðtal við Báru Halldórsdóttur sem steig fram í kjölfar þess að hafa tekið upp hatursorðræðu þingmanna á Klausturbar og sent fjölmiðlum til úrvinnslu.

Milla Ósk Magnúsdóttir, RÚV.  Fyrir viðtal við hjónin Stefán Þór Gunnarsson og Elísu Rós Jónsdóttur sem misstu son sinn vegna ofneyslu fíkniefna. Hjónin lýsa eigin úrræðaleysi og áfallinu sem fylgdi andlátinu.

Ragnheiður Linnet, Mannlífi. Fyrir viðtal við Merhawit Baryamikael Tesfaslase, ekkju plastbarkaþegans, Andemariam Beyene, um aðdraganda ígræðslunnar og hvernig líf fjölskyldunnar umturnaðist eftir þá örlagaríku aðgerð.

Vinningshafi og rökstuðningur dómnefndar:  Ragnheiður Linnet, Mannlífi, hlýtur verðlaunin fyrir viðtal sitt við Merhawit Baryamikael Tesfaslase Hún er ekkja plastbarkaþegans Andemariams Beyene sem var fyrsti maðurinn sem gervibarki var græddur í árið 2011.

Í viðtalinu kynnist lesandinn harmleik fjölskyldunnar. Merhawit lýsir aðdraganda aðgerðarinnar og því þegar hún missti mann sinn í einu stærsta svikamáli sem upp hefur komið í læknavísindum áratugum saman. Málið tengist Íslandi með beinum hætti vegna þess að Andemariam var búsettur hér þegar hann veiktist og því sjúklingur íslenskra lækna.

Merhawit greinir frá því hvernig hún stóð upp réttindalaus með þrjú ung börn eftir andlát Andemariams árið 2014.

Viðtalið er vel skrifað og hjartnæmt. Auk þess að greina frá örlögum Merhawit og barnanna veitir það góða innsýn í málið og það sem aflaga fór bæði vísindalega og siðfræðilega.

 

Rannsóknarblaðamennska ársins

 Tilnefndir voru:

Freyr Rögnvaldsson og Steindór Grétar Jónsson, Stundinni. Fyrir umfjöllunina Landið sem auðmenn eiga sem veitir ríka yfirsýn yfir umfang fyrrum bújarða sem nú eru í eigu innlendra og erlendra auðmanna og innsýn í hverjir þeir eru.

Helgi Seljan, RÚV. Fyrir fréttaskýringu um stöðu erlendra verkamanna og sjálfboðaliða sem hingað koma, búa við bágar aðstæður og eru sviknir um laun.

Ingólfur Bjarni Sigfússon, RÚV. Fyrir fréttaskýringu um vopnaflutninga Air Atlanta og vanhöld Samgöngustofu á því að framfylgja sáttmálum um vopnaflutninga sem Ísland hefur fullgilt.

Vinningshafar og rökstuðningur dómnefndar:  Verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins 2018 hljóta Freyr Rögnvaldsson og Steindór Grétar Jónsson, Stundinni, fyrir umfjöllun sína, Landið sem auðmenn eiga.

Í umfjölluninni birtist eignarhald auðfólks á jörðum á Íslandskorti sem nær yfir heila opnu og veitir skýra yfirsýn yfir umfang fyrrum bújarða sem nú eru í eigu innlendra og erlendra auðmanna. Sumir þeirra hafa safnað að sér fjölda jarða og jafnvel keypt upp jarðir á ákveðnum stöðum á landinu. Þá er eignarhald fjölda jarða í félögum sem stundum hvílir leynd yfir.

Í umfjölluninni eru viðtöl við nokkra þeirra sem hvað umsvifamestir hafa verið í jarðakaupum og veita viðtölin innsýn í margbreytilegar ástæður fólks fyrir því að vilja eignast jarðir á Íslandi.

Framlag þeirra Freys og Steindórs veitir mikilvæga yfirsýn yfir umdeilt mál sem hefur verið mikið til umræðu í samfélaginu.

 

Umfjöllun ársins

 Tilnefnd voru:

Aðalheiður Ámundadóttir, Fréttablaðinu.  Fyrir umfjöllun með fréttum og fréttaskýringum um forsögu, endurupptöku og eftirmála Guðmundar- og Geirfinnsmála.

Guðrún Hálfdánardóttir, Morgunblaðinu/Mbl.is. Fyrir greinaflokkinn Gætt að geðheilbrigði um úrræði og úrræðaleysi þegar kemur að því að hjálpa fólki sem glímir við geðsjúkdóma og/eða fíkn.

Hólmfríður Helga Sigurðardóttir, Stundinni. Fyrir umfjöllun með frásögnum átta kvenna sem opinbera bitleysi nálgunarbanns sem úrræðis í heimilisofbeldismálum.

Vinningshafi og rökstuðningur dómnefndar:  Verðlaun fyrir umfjöllun ársins hlýtur Aðalheiður Ámundadóttir, Fréttablaðinu, fyrir upplýsandi og greinargóð skrif um Guðmundar- og Geirfinnsmál.

Í umfjöllun sinni um endurupptöku og um leið forsögu Guðmundar- og Geirfinnsmála tekst Aðalheiði að fanga kjarna atburða hverju sinni og setja í samhengi.

Auk upplýsandi frétta af gangi dómsmálsins varpaði Aðalheiður í fréttaskýringum ljósi á sögu mannshvarfanna tveggja 1974, rannsókn þeirra á sínum tíma og aðdraganda þess að málin fengust endurupptekin á síðasta ári. Þá fylgdi hún málinu vel eftir þegar Hæstiréttur hafði fellt sinn dóm með umfjöllun um möguleg eftirmál og möguleikanum á því að mannshvörfin upplýsist á endanum.

Skrif Aðalheiðar einkennast af djúpri þekkingu á flókinni og langri sögu sem hún skilar lesendum á skýran og aðgengilegan máta.

 

Blaðamannaverðlaun ársins

 Tilnefnd voru:

Sigríður Halldórsdóttir, RÚV. Fyrir umfjöllun um óábyrga notkun plasts, þar sem sýnt er með sláandi hætti hvernig það mengar umhverfið, neysluvatn okkar og matvæli.

Viktoría Hermannsdóttir og Þórhildur Ólafsdóttir, RÚV. Fyrir útvarpsþáttaröðina Kverkatak þar sem lýst er birtingarmyndum heimilisofbeldis frá sjónarhorni þolenda, aðstandenda þeirra og sérfræðinga.

Þórður Snær Júlíusson, Kjarnanum. Fyrir bókina Kaupthinking sem dregur fram skýra mynd af hugarfari og ólöglegum fjármálagjörningum innan Kaupþings í aðdraganda bankahrunsins og afleiðingum þeirra.

Vinningshafi og rökstuðningur dómnefndar:  Þórður Snær Júlíusson, Kjarnanum, hlýtur Blaðamannaverðlaun ársins 2018 fyrir heildstæða greiningu á hugarfari og ólöglegum fjármálagjörningum í bókinni Kaupthinking – Bankinn sem átti sig sjálfur.

Umfjöllun Þórðar Snæs dregur upp skýra mynd af ósæmilegu háttarlagi þeirra lykilbankamanna sem leiddu Kaupþing frá einkavæðingu að falli árið 2008. Umfjöllunin er afrakstur áralangrar rannsóknar Þórðar á málinu og víðtækrar heimildavinnu úr bæði opinberum og óopinberum gögnum sem hann komst yfir. Vinna hans á sér fáar hliðstæður.

Bókin sýnir hvernig gera má yfirgripsmikla rannsóknarvinnu til margra ára bæði auðlæsilega og skiljanlega. Hún er áþreifanleg heimild um það traust sem blaðamaður getur áunnið sér og þá þekkingu sem myndast þegar hann helgar sig málefni.