- Félagið
- Faglegt
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Stjórn Blaðamannafélags Íslands samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum vegna máls Inga Freys Vilhjálmssonar, sem kallaður var til skýrslutöku með réttarstöðu sakbornings í tengslum við Samherjamálið:
Stjórn Blaðamannafélagsins fordæmir að enn einn blaðamaðurinn, í þetta sinn Ingi Freyr Vilhjálmsson, hljóti stöðu sakbornings í tengslum við Samherjamálið, fyrir það eitt að sinna störfum sínum. Samkvæmt upplýsingum sem Ingi Freyr fékk hjá lögreglu við skýrslutöku fyrir fáeinum dögum er sakarefnið það eitt að hann var viðtakandi tölvupósts.
Stjórn félagsins lýsir jafnframt yfir miklum áhyggjum af þeirri vegferð sem lögreglan virðist vera á - að það sé nú talið mögulega saknæmt athæfi að taka á móti tölvupóstum eða hvers kyns upplýsingum. Það er einmitt kjarninn í vinnu hvers blaðamanns: Að taka á móti upplýsingum, meta trúverðugleika þeirra og fréttagildi í þágu almennings.
Stjórnin bendir á fáránleika þeirra ákvörðunar Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra að veita blaðamönnum stöðu sakborninga í þessu máli, enda liggur ekki fyrir að þeir hafi gerst sekir um saknæmt athæfi. Ennfremur vill Blaðamannafélagið undirstrika að störf og tjáningarfrelsi blaðamanna njóta ríkrar verndar vegna þess sérstaka hlutverks sem fjölmiðlar gegna með tilliti til opinberrar umræðu í lýðræðisríki. Því ber að gjalda varhug við íhlutan lögreglu sem kann að vera túlkuð sem afskipti af störfum blaðamanna við öflun og miðlun frétta um mikilvæg málefni.
Ingi Freyr hefur, samkvæmt upplýsingum hans frá lögreglu, haft réttarstöðu sakbornings í um hálft annað ár, án þess að vera upplýstur um það. Hann segir lögreglu hafa skýrt það með því að hún hafi ranglega haldið að hann væri búsettur erlendis. Stjórn Blaðamannafélagsins telur þetta lýsandi fyrir vinnubrögð lögreglunnar á Norðurlandi eystra í þessu máli. Þau hafa einkennst af vanþekkingu en ekki síður vanvirðingu gagnvart grundvallarstörfum blaðamanna og hlutverki þeirra, sem og þeirri auknu vernd sem þeir hljóta samkvæmt lögum starfa sinna vegna. Að mati félagsins er rannsóknin í heild tilefnislaus með öllu. Hún er þó til þess gerð að skapa óvissu um lagalegan rétt blaðamanna og ótta innan stéttarinnar um að hver sem er geti hvenær sem er verið kallaður til yfirheyrslu og hlotið réttarstöðu sakbornings fyrir það eitt að fá sendan tölvupóst.
Þá telur Blaðamannafélagið óeðlilegt hve rannsókn þessa máls hefur tekið langan tíma, enda hefur ríkissaksóknari sent lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra erindi þar sem óskað er eftir skýringum á töfunum. Það er íþyngjandi fyrir alla að hafa réttarstöðu sakbornings, en fyrir blaðamenn er það sömuleiðis mikið inngrip inn í tjáningarfrelsi þeirra og störf. Þeim mun mikilvægari almannahagsmuni þarf þar af leiðandi til að réttlæta slíkt inngrip. Stjórn Blaðamannafélagsins krefst þess að lögreglan ljúki rannsókn sinni án frekari tafa.
F.h. stjórnar BÍ,
Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður