Lög Bí

I. kafli - Tilgangur félagsins

1.1. Félagið heitir Blaðamannafélag Íslands, BÍ, og er heimilisfang þess í Reykjavík. Tilgangur félagsins er að gæta faglegra og stéttarlegra hagsmuna félagsmanna í hvívetna.

1.2. Blaðamannafélaginu ber:

a. Að vinna að bættum launa- og starfskjörum félagsmanna.

b. Að standa vörð um prent- og tjáningarfrelsi

c. Að stuðla að betri aðstöðu félagsmanna til menntunar.

d. Að standa fyrir faglegri umræðu meðal félagsmanna og leitast við að hafa áhrif á opinbera stefnu og samfélagslega umræðu um blaðamennsku, fjölmiðlun og tjáningarfrelsi.

e. Að standa vörð um ritstjórnarlegt frelsi og sjálfstæði fjölmiðla.

f. Að standa vörð um hagsmuni stéttarinnar gagnvart eigendum fjölmiðla, löggjafarvaldi og stjórnvöldum.

1.3. Félagið er aðili að alþjóðasamtökum blaðamanna.

 

II. kafli - Aðild og inntökuskilyrði

2.1. Félagar geta verið allir þeir sem hafa frétta- eða blaðamennsku að aðalstarfi, það er að miðla upplýsingum, skoðunum og hugmyndum til almennings í gegnum fjölmiðla, óháð því hvort um er að ræða dagblöð, vikublöð, sértímarit, landshlutablöð, vefmiðla, útvarps- eða sjónvarpsstöðvar eða aðra fjölmiðla, svo fremi sem staðið er skil á tilskildum gjöldum til félagsins og sjóða þess.

2.1.1. Á meðal þeirra sem samkvæmt þessu geta verið félagar eru blaðamenn, fréttamenn, útlitsteiknarar, prófarkalesarar, handritalesarar, ljósmyndarar, ritstjórar, ritstjórnarfulltrúar, fréttastjórar, dagskrárgerðarfólk, hljóð- og tökumenn, tækni- og aðstoðarfólk í frétta- eða blaðamennsku og hvert það annað starfsfólk fjölmiðla sem sinna upplýsingamiðlun og störfum sem tengjast frétta- eða blaðamennsku. Upptalning þessi er sett fram í dæmaskyni, en er ekki tæmandi.

2.1.2. Félagar geta einnig verið þeir sem starfa sjálfstætt að frétta- eða blaðamennsku og standa sjálfir skil á tilskildum greiðslum til félagsins og sjóða þess. Einnig lausamenn sem sinna sömu störfum sem eingöngu greiða lausamannagjald, sbr. gr. 3.2. Félagar geta einnig orðið allir þeir sem starfa að fjölmiðlun, upplýsingaöflun og miðlun, óháð miðlunarleið.

2.2. Hætti félagi starfi í blaðamennsku jafngildir það úrsögn hans úr félaginu. Sömuleiðis geta félagar, sem leggja fyrir sig lausavinnu (freelance) haldið fullri félagsaðild.

2.3. Félagsmaður, sem kominn er á eftirlaun og er ekki lengur í fullu starfi eða býr við örorku, skal vera undanþeginn greiðslu félagsgjalda. Hann skal þó sem áður njóta félagsréttinda.

2.4. Þeir sem að mati stjórnar félagsins fullnægja skilyrðum 2.1. verða félagar þegar við ráðningu.

2.5. Ágreiningsmálum um félagsaðild er heimilt að vísa til stjórnar til endanlegrar afgreiðslu.

 

III. kafli - Félagsgjöld og sjóðir

3.1. Félagsgjald skal vera 1% af heildarlaunum eins og þau eru á hverjum tíma hjá þeim félögum, sem eru fastráðnir eftir aðal- og sérkjarasamningum félagsins. Sjálfstætt starfandi blaðamenn greiða sömu gjöld, þó að lágmarki skv. byrjunarlaunum í 2. flokki kjarasamnings. Stjórn félagsins getur ákveðið að setja þak á félagsgjöld. Aðalfundur ákveður hverju sinni hvort og þá hversu hátt hlutfall félagsgjalda er lagt í varasjóð.

3.2. Lausamenn greiða 0.9% af byrjunarlaunum í 2. launaflokki félagsins miðað við janúar ár hvert.

3.3. Félagsmaður sem ekki hefur greitt tilskilin gjöld til félagsins í allt að eitt ár telst ekki lengur félagsmaður og dettur út af félagaskrá en getur endurnýjað aðild með greiðslu gjaldfallinna félagsgjalda.

3.4. Tekjur félagsins af höfundarréttargreiðslum skulu renna í Menningarsjóð sem starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

3.5. Hlutverk fyrrgreindra sjóða er eftirfarandi:

  • Menningarsjóður blaðamanna starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, sbr. 3.4.
  • Orlofsheimilasjóður, ásamt Menningarsjóði, á frístundahús félagsins sem Orlofssjóður rekur.
  • Styrktarsjóður veitir fjárhagslegan stuðning til félagsmanna og fjölskyldna þeirra svo sem nánar greinir í reglugerð um sjóðinn.
  • Endurmenntunar- og háskólasjóður veitir félagsmönnum námsstyrki til lengri eða skemmri tíma.

3.7. Reglugerðir og starfsreglur sjóðanna skal vera aðgengilegar á vef félagsins.

 

IV. kafli - Aðalfundur

4.1. Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok fyrsta ársþriðjungs ár hvert og fer hann með æðsta vald í öllum málefnum félagsins.

4.2. Til aðalfundar skal boðað með auglýsingu í fjölmiðlum og á vef félagsins með minnst mánaðar fyrirvara. Dagskrár skal getið í fundarboði. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.

4.3. Dagskrá aðalfundar skal vera þessi:

Setning fundar

Lögmæti aðalfundar staðreynt

Kjör fundarstjóra og fundarritara

Skýrsla stjórnar

Skýrsla gjaldkera skv. framlögðum ársreikningi

Skýrslur sjóða skv. framlögðum ársreikningum

Staðfesting ársreikninga

Skýrsla siðanefndar BÍ

Tillögur til breytinga á lögum félagsins

Atkvæðagreiðsla um framlagðar breytingar á lögum félagsins

Kosning formanns

Kosning þriggja aðalmanna í stjórn og eins/tveggja varamanna (sbr. 4.5.1.)

Kosning þriggja manna í Siðanefnd BÍ og þriggja varamanna

Kosning þriggja manna í stjórn Menningarsjóðs BÍ

Kosning þriggja manna í stjórn Styrktarsjóðs BÍ og þriggja varamanna

Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara

Kosning fimm manna í dómnefnd Blaðamannaverðlaunanna

Kosning þriggja manna kjörnefndar

Önnur mál

4.4. Fyrir aðalfundi skulu liggja endurskoðaðir reikningar félagsins og sjóða þess og skriflegar skýrslur um starfsemi liðins árs. Allar skýrslur til aðalfundar skal jafnframt birta á vef félagsins.

4.5. Aðalfundur kýs formann og sex menn í aðalstjórn og þrjá til vara úr hópi fullgildra félaga.

4.5.1. Framboði til formanns félagsins skal skila inn til skrifstofu félagsins a.m.k. tveimur vikum fyrir boðaðan aðalfund. Þriggja manna kjörnefnd, sem kjörin er á aðalfundi og starfar allt árið, skal skila inn tillögum að framboðum í stjórn a.m.k tveimur vikum fyrir boðaðan aðalfund. Öllum félögum BÍ er heimilt að bjóða sig fram til annarra embætta en formanns á sjálfum fundinum. Formaður er kosinn til tveggja ára í senn og sama gildir um aðra stjórnarmenn. Annað árið skal kjósa formann, 3 aðalmenn og 1 varamann, og hitt árið 3 aðalmenn og 2 varamenn. Komi til formannskosningar sér kjörnefnd um framkvæmd kosningarinnar, m.a. hvað varðar opnun kjörfundar og utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Kjörnefnd setji sér starfsreglur fyrir utankjörstaðakosningu, póstkosningu og/eða rafræna kosningu. Þessar starfsreglur séu birtar á vef félagsins.

4.5.2. Ef formaður er kosinn úr hópi þeirra stjórnarmanna, sem eiga eitt starfsár eftir, skal kjörinn maður í stjórnina til eins árs í hans stað. Sama gildir ef varastjórnarmaður er kjörinn í aðalstjórn.

4.5.3. Hætti aðalstjórnarmaður á kjörtímabilinu, gengur sá varamaður, er flest atkvæði hlaut á aðalfundi, upp í aðalstjórnina. Séu varastjórnarmenn sjálfkjörnir skal aðalfundurinn engu að síður ákvarða röð þeirra með hlutkesti.

4.6 Siðanefnd BÍ skipa fimm menn. Aðalfundur kýs formann, varaformann og meðnefndarmann og þrjá varamenn. Útgefendur tilnefna einn í nefndina og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands einn. Varamenn þeirra skulu koma úr hópi varamanna kjörnum á aðalfundi. Nefndin skal taka til meðferðar og fella úrskurði í þeim málum, sem henni ber að fjalla um samkvæmt siðareglum félagsins. Nefndin skal leggja fram skriflegt yfirlit um störf sín á aðalfundi.

4.7 Aðalfundur kýs þrjá menn og einn til vara í stjórn Menningarsjóðs BÍ, sem jafnframt annast málefni Orlofsheimilasjóðs og endurmenntunar- og háskólasjóðs

4.8 Aðalfundur kýs þrjá menn í stjórn Styrktarsjóðs BÍ og þrjá til vara.

4.9 Aðalfundur kýs tvo skoðunarmenn reikninga og einn til vara og skulu þeir endurskoða reikninga félagsins, menningarsjóðs, orlofsheimilasjóðs, styrktarsjóðs og annarra sjóða.

4.10 Aðalfundur kýs fimm manna úthlutunarnefnd vegna Blaðamannaverðlauna og tvo til vara.

4.11 Ef fyrirséð er að ekki takist að tæma dagskrá aðalfundar, eða aðrar jafngildar ástæður ber upp, getur aðalfundur ákveðið að framhaldsaðalfundur verði haldinn innan tilsetts tíma.

 

V. kafli - Félagsstjórn

5.1. Formaður kallar saman fundi í stjórn félagsins og stýrir þeim en varaformaður í forföllum hans. Félagsstjórn ræður framkvæmdastjóra félagsins og annað starfslið, hefur yfirumsjón með starfsemi félagsins og ber á henni fulla ábyrgð.

5.2. Félagsstjórn kýs úr sínum röðum varaformann, ritara og gjaldkera á fyrsta fundi sínum eftir hvern aðalfund. Formaður, varaformaður, ritari og gjaldkeri mynda sérstaka framkvæmdanefnd, sem hafa skal umsjón með daglegum rekstri félagsins í félagi við framkvæmdastjóra og í samræmi við samþykktir félagsfunda og félagsstjórnar.

5.3. Félagsstjórn gerir starfsáætlun fyrir hvert starfsár og fjárhagsáætlun fyrir hvert fjárhagsár.

5.4. Félagsstjórn boðar til almennra félagsfunda og annast reglulega útgáfu félagstíðinda.

5.5. Heimilt er einstökum starfs- eða faghópum innan BÍ að stofna sérstakar félagsdeildir. Stjórnir deildanna skulu skipaðar þremur mönnum, sem kjósa skal á deildarfundi fyrir aðalfundi BÍ ár hvert. Deildarfundur kýs formann sérstaklega, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum ritara og gjaldkera. Stjórnin kallar saman deildarfundi þegar þurfa þykir og stýrir starfi deildarinnar í samráði við aðalstjórn félagsins. Stofnun einstakra félagsdeilda skal háð samþykki stjórnar BÍ og aðalfundar lög deildarinnar hljóta staðfestingu hennar og aðalfundar áður en þau öðlast gildi.

5.6. Lausráðnir blaðamenn mynda sérstaka félagsdeild. Stjórn hennar skal kosin á deildarfundi í ársbyrjun ár hvert á sama hátt og tilgreint er í 4.1. og 4.2. Inntökubeiðnir skulu hljóta samþykki stjórnar BÍ. Lög deildarinnar skulu hljóta staðfestingu stjórnar BÍ.

 

VI. kafli - Trúnaðarmenn

6.1. Félagsmenn á hverjum vinnustað skulu velja sér trúnaðarmenn og tilkynna kjör þeirra á aðalfundi. Trúnaðarmenn mynda trúnaðarmannaráð.

6.2. Félagsstjórn skal efna til funda með trúnaðarmannaráði minnst tvisvar á ári. Nýjum trúnaðarmönnum skal kynna rækilega efni Reglugerðar um réttindi og skyldur trúnaðarmanna Blaðamannafélags Íslands.

 

VII. kafli - Kjarasamningar og vinnudeilur

7.1. Blaðamannafélag Íslands fer með samningsrétt gagnvart atvinnurekendum fyrir alla sína félagsmenn.

7.2. Samningaráð skipa sjö félagsmenn. Formaður og varaformaður eru sjálfkjörnir í samningaráð en aðalfundur kýs fimm aðalmenn og þrjá til vara samkvæmt tilnefningu stærstu vinnustaða á félagssvæðinu. Varamenn ganga upp í samninganefndina með sama hætti og varamenn í félagsstjórn, sbr. 4.5.3. Samningaráð kýs sér formann. Framkvæmdastjóri félagsins starfar með samningaráði skv. ákvörðun félagsstjórnar.

7.3. Samningaráðið annast kröfu- og samningagerð félagsins vegna kjarasamninga í samráði við félagsstjórn, trúnaðarmannaráð og samninganefndir einstakra vinnustaða eftir atvikum og í samræmi við ákvarðanir félagsfundar.

7.4. Samningaráð hefur heimild til að leggja til boðun vinnustöðvana eða annarra kjaradeiluaðgerða í samræmi við ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Samningaráð hefur heimild til að aflýsa eða fresta vinnustöðvunum eða öðrum kjaradeiluaðgerðum.

7.5. Starfsmönnum tiltekins vinnustaðar er heimilt að gera sérsamning um kaup og kjör. Sérsamningar skulu staðfestir af samningaráði áður en þeir eru bornir undir atkvæði viðkomandi félagsmanna sbr. 7.6.

7.6. Nýir kjarasamningar skulu kynntir og bornir undir atkvæði á almennum félagsfundi eða fundi viðkomandi félagsmanna á tilteknum vinnustað, þegar það á við, eigi síðar en tveimur vikum eftir að þeir eru undirritaðir og skal kynningarfundur auglýstur á vef BÍ. Atkvæðagreiðsla um kjarasamninga skal vera leynileg. Einnig er heimilt að hafa póstatkvæðagreiðslu eða rafræna atkvæðagreiðslu um kjarasamninga, sbr. ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938. Einfaldan meirihluta þarf til að hafna staðfestingu kjarasamnings.

 

VIII. kafli - Félagsskírteini

8.1. Blaðamannafélagið gefur út félagsskírteini sem hefur tvíþættan tilgang: staðfestingu á félagsaðild og til að auðvelda félagsmönnum aðgang í sínu starfi.

8.2. Sérhver félagsmaður skal fá félagsskírteini félagsins eftir fjögurra mánaða starf, enda haldi hann áfram störfum við fjölmiðlun. Í skírteininu skal vera mynd af félagsmanni ásamt upplýsingum um nafn, kennitölu, starfsheiti, félagsnúmer og vinnustað.

8.3. Skírteinið skal jafnan endurnýjað í byrjun árs, enda sé félagsmaður þá skuldlaus við félagið.

8.4. Einungis handahafa er heimilt að nota skírteinið. Sé það misnotað, má innkalla það um lengri eða skemmri tíma skv. ákvörðun félagsstjórnar.

8.5. Hægt er að skjóta ágreiningi um útgáfu blaðamannaskírteinis til félagsstjórnar.

 

IX. kafli - Félagaskrá

9.1. Félagsstjórn skal halda skrá yfir félagsmenn. Listi yfir félagsmenn skal birtur í félagstíðindum og á heimasíðu BÍ.

 

X. kafli - Lagabreytingar

10.1. Lögum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi og teljast lagabreytingar því aðeins samþykktar, að tveir þriðju hlutar fundarmanna greiði þeim atkvæði. Tillögur til lagabreytinga skulu berast stjórn félagsins fyrir 1. febrúar ár hvert. Þær skulu sendar félagsmönnum með fundarboði og/eða kynntar rækilega á vefsíðu félagsins.

 

Samþykkt á framhaldsaðalfundi Blaðamannafélags Íslands 4. september 2024