Vilja yfirráð yfir ljósmyndasafni Tímans

Tíu fyrrverandi ljósmyndarar Tímans hafa ákveðið að stefna Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra og Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjaverði. Tilefnið er varsla Þjóðminjasafnsins á ljósmyndasafni Tímans. Ljósmyndararnir telja að safnið hafi borist í hendur Þjóðmynjasafnsins með ólögmætum hætti, þar eigi sér stað ólögmæt not á safninu og þeir hafi verið sviftir umráða- og höfundarrétti sínum.

Málavextir eru þeir að á 10. áratug síðustu aldar var samið við fyrirtækið Frjálsa fjölmiðlun ehf. um útgáfu á Tímanum og var það félag því síðasti vörsluhafi filmu- og myndasafnsins. Bú Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 2. júlí 2002 og var Sigurður Gizurarson hrl. skipaður skiptastjóri þrotabúsins. Á þeim tíma var filmu- og myndasafn Tímans, sem um er deilt í máli þessu, geymt í herbergi að Þverholti 11. Þar sem félagið var orðið gjaldþrota falaðist Inga Lára Baldvinsdóttir, starfsmaður Þjóðminjasafns Íslands, eftir ljósmyndasafninu sbr. bréf hennar til Sigurðar Gizurarsonar dags. 24. nóvember 2003.

Á síðari hluta árs 2003 afhenti Sigurður Gizurarson Þjóðminjasafni Íslands safnið sbr. bréf lögmanns stefnenda dags. 21. apríl 2004 og bréf Sigurðar Gizurarsonar dags. 27. apríl 2004. Stefnendur voru afar ósáttir við þessa ráðstöfun enda töldu þeir Sigurð enga heimild hafa til slíkrar ráðstöfunar og kusu frekar að safnið yrði varðveitt annars staðar, þ.e. hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Í kjölfarið óskaði lögmaður stefnenda eftir viðræðum um málið við Þjóðminjasafn Íslands. Þrátt fyrir bréfaskrif og viðræður hefur ekki náðst samkomulag og því telja ljósmyndararnir 10 sig ekki eiga annars kosta en að stefna framangreindum aðilum til að fá safnið afhent. Vilji ljósmyndarana stendur til að koma safninu fyrir hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur.

Þess ber að geta að Þjóðminjasafn Íslands hefur afhent óviðkomandi ljósmyndir úr umræddu ljósmyndasafni til notkunar án samþykkis stefnenda enda liggur enginn samningur fyrir á milli stefndu og stefnenda um nýtingu. Það er Blaðamannafélag Íslands sem rekur málið fyrir hönd ljósmyndaranna.

Sigurður Már Jónsson