Verðlaunaljósmyndarinn John Moore á Íslandi

John Moore talar á fundinum með blaðaljósmyndurum.  Mynd/Hulda Margrét
John Moore talar á fundinum með blaðaljósmyndurum. Mynd/Hulda Margrét

Bandaríski ljósmyndarinn John Moore hélt á dögunum fyrirlestur fyrir félaga í Blaðaljósmyndarafélaginu og aðra áhugasama, en Moore hefur meðal annars hlotið Pullitzer-verðlaun, World Press Photo-verðlaun (fjórum sinnum!) og fleiri viðurkenningar fyrir ljósmyndir sínar. 

Moore var hingað kominn til að vera yfirdómari í keppninni Myndir ársins. Úrslit í keppninni verða reyndar ekki tilkynnt fyrr en í lok apríl, þegar sýningin Myndir ársins verður opnuð. Þá kemur í ljós hvaða ljósmyndarar hljóta viðurkenningar fyrir bestu myndir liðins árs á Íslandi. 

John hélt fyrirlestur undir nafninu Beyond the Frame, þar sem hann fór yfir mörg af sínum helstu ljósmyndaverkefnum, mestmegnis frá ferli sínum sem ljósmyndari fyrir AP og Getty Images þar sem hann starfar núna. Myndirnar voru afar fjölbreyttar; frá Íraksstríðinu, árum hans í Pakistan til innflytjendavandamála í Bandaríkjunum og fleiri stöðum sem hann hefur starfað á. 

Héðan hélt hann svo til Úkraínu þar sem hann mun mynda á vígstöðvunum fyrir Getty, en þetta er önnur ferð hans þangað.