Umfjöllun um innflytjendur sé varkár og rétt

 Siðanet blaðamanna,  (Ethical Journalism Network, EJN) hefur beitt sér nokkuð í umræðunni um innflytjenda og flóttamannamál í Evrópu og varað við óígrundaðri umræðu. Í þem efnum hafa samtökin birt fimm punkta með spurningum og atriðum til umhugsunar fyrir blaðamenn að skoða þegar þeir eru að fjalla um þennan málaflokk. Þessi atriði hafa verið rædd að undanförnu á ýmsum fundum í Evrópu, nú síðast í Helsinki í Finnlandi í síðustu viku.  Þessi fimm atriði EJN eru eftirfarandi:

  

Staðreyndir – ekki fordóma
Erum við nákvæm, óhlutdræg,  yfirveguð og byggjum á staðreyndum  í umfjöllun okkar? Vinnum við óháð efnistökum sem eiga rætur sínar í stjórnmálum og tilfinningum en ekki staðreyndum? Erum við að segja frá áhrifum innflyjenda á samfélög okkar á gegnsæjan og sanngjarnan hátt?

 

Þekkjum lagabókstafinn
Hælisleitandi?   Innflytjandi í leit að betri afkomu? Flóttamaður? Fórnarlamb mansals?   Þekkjum við þessi hugtök og segjum við lesendu/hlustendum okkar rétt frá hver réttindi ólíkra hópa innflytjenda eru?  

 

Sýnum mannúð
Mannúð er kjarninn í siðlegri blaðamennsku. En við verðum að halda tilfinningunum í skefjum og gæta okkar á því að skapa ekki fórnarlömb eða ofureinfalda hluti í framsetningu okkar þanig að úr verði einangruð mannleg dæmi eða sögur, sem ekki eru í neinu samhengi við hina stærri mynd mála.

 

Rödd fyrir alla
Hafa innflytjendur rödd? Erum við að hlusta á hvað samfélg innflytjenda, tímabundin eða varanleg, hafa að segja? Spyrjum okkur ávallt að því hversu vel sjálfskipaðir talsmenn innflytjenda endurspegla raunverulega stöðu þeirra.

 

Spornum gegn hatri
Höfum við forðast öfgar?  Höfum við staldrað við og lagt mat á hvort æsilegt efni um innflytjendur eða um þá sem vilja sporna við komu innflytjenda geti leitt til aukins haturs? Orð eins og „svermur“, „flóð“, eða  „flóðbylgja“ innflytjenda verða að vera notuð með varúð, og einnig er slæmt að nota orð eins og „rasismi“ eða „útlendingahatur“ ógætilega.

Sjá einnig hér