Túlkun Hæstaréttar gerólík túlkun héraðsdóms

Hæstiréttur leggur gjörólíkt mat á það  en héraðsdómari hvað flokkast sem viðunandi tilraun til að ná tali af einstaklingi sem fjallað er um í fréttum. Sömuleiðis er gerólíkur skilningur Hæstaréttar og héraðsdómara á því  hvernig túlka beri framsetningu á frétt og hversu mikið eigi að lesa inn í samhengið og myndmál í frétt.

Þetta kemur fram þegar dómur Hæstaréttar yfir Svavari Halldórssyni fréttamanni er skoðaður, en Svavar var dæmdur til að greiða Jóni Ásgeiri Jóhannessyni 300 þúsund króna miskabætur með vöxtum auk þess að greiða honum málskostnað upp á eina milljón króna.

Sérstaka athygli vekur sá mikli munur sem kemur fram á túlkun Gunnars Aðalsteinssonar héraðsdómara annars vegar og túlkun hæstaréttardómaranna þriggja sem kváðu upp dóminn, en það voru þau Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.   Héraðasómarinn telur að mikilvægi tjáningafrelsis og þjóðfélagsumræðunnar skerðist ekki af persónuverndarhagsmunum Jóns Ásgeirs í þessari frétt þar sem Jón Ásgeir er vissulega í aukahlutverki og sé fréttin skoðuð í heild fjalli hún að stofni til ekki um hann. Skoða verðir fréttina í heild en ekki einstaka ummæli.  Því sé fréttin inna marka. Hæstaréttardómararnir hins vegar kjósa að horfa eingöngu til þátts Jóns Ágeirs í fréttinni og skoða myndmál og samhengi út frá honum sem einstaklingi frekar en að líta til samhengis þjóðfélagsumræðunnar.  Þessi ólíka nálgun hefur í för með sér ólíkar niðurstöður, annars vegar almennari og opnari niðurstöðu í héraðsdómi og svo hins vegar þrengri og tæknilegri í Hæstarétti.  Engu að síður tala bæði dómsstig um mikilvægi tjáningarfrelsis og fjölmiðla, en vegna hinnar tæknilegu nálgunar  Hæstaréttar er umræðunni settur miklu þrengri rammi og blaðamanni refsað grimmilega fyrir að fara út fyrir þann ramma sem þarna er settur. Með því eru skilaboðin skýr um aðhaldssemi í frásögn, um að segja frekar minna en meira að koma ekki á framfæri upplýsingum ef hugsanlegt kynni að vera að þær kölluðu á lögsókn. Túlkun Hæstaréttar hefur því ótvírætt kælingaráhrif.

Hitt atriðið sem vekur sérstaka athygli í þessum dómi er munurinn á túlkun dómstiga á því hvað telst nægjanlegt þegar verið er að reyna að ná í einstaklinga sem fjallað er um í fréttum.  Fram koma að Svavar hafði reynt að ná Jóni Ásgeiri í síma vegna fréttarinnar, en ekki tekist. Héraðsdómarinn taldi þetta sýna að sjónarmiðum hans hafi verið reynt að koma til skila. Hæstiréttur telur það hins vegar ekki og virðist vera að setja þá reglu að ekki megi segja frétt, að minnsta kosti ekki á RÚV, nema búið sé að fá fram sjónarmið beggja eða allra aðila. Þessi niðurstaða er sérstaklega umhugsunarverð fyrir starfandi blaðamenn sem verða þá hugsanlega að bíða með frétt þar til búið er að ná til allra sem henni tengjast.  Slíkt gæti haft veruleg áhrif á dagleg störf við fréttaöflun og hugsanlega þurfa miðlar að setja sér einhverjar skýrar reglur um hvenær er fullreynt um að ná í menn. 

-Birgir Guðmundsson

Sjá dóma Hæstaréttar og Héraðsdóms hér