Tilnefningafrestur til 11. febrúar

Frestur til að skila inn tilnefningum til Blaðamannaverðlauna fyrir árið 2012 er til kl 12:00 mánudaginn 11. febrúar 2013.  Tilnefningar  ásamt fylgigögnum skulu annað hvort berast til skrifstofu Blaðamannafélagsins, Síðumúla 23, Reykjavík  eða vera skilað rafrænt á sérstöku tilnefningarformi sem finna má með því að smella á hnappinn "Tilnefnið hér" , sem er hér til hliðar.

Í samræmi við samþykkt síðasta aðalfundar hefur verðlaunaflokkum verið fjölgað úr þremur í fjóra og hefur flokkurinn "Viðtal ársins" nú bæst við en fyrir voru verðlaunaflokkarnir "Blaðamannaverðlaun ársins"; "Rannsóknarblaðamennska ársins"; og "Besta umfjöllun árins".

Í greinargerð með tillögu stjórnar fyrir aðalfund sagði meðal annars um tilefni þessarar breytingar að  næstum áratugs reynsla er nú komin á Blaðamannaverðlaun B.Í. Fram hafi komið hjá talsmönnum dómnefndar í gegnum árin að skynsamlegt kynni að vera að bæta við einum eða tveimur verðlaunaflokkum til þess að verðlaunin næðu til fjölbreyttari flóru blaðamennsku á Íslandi. Síðan segir í greinargerðinni:  " Þegar þessi mál hefur borið á góma hefur það jafnan verið ótti við að verðlaunaflokkum fjöldi of mikið. Vissulega má til sanns vegar færa að brýnt sé varlega í að fjölga flokkum. Of margir flokkar geta gengisfellt verðlaunin og gert þau ómarkvissari. Hins vegar er stjórn BÍ sammála því áliti talsmanna dómnefndar í gegnum árin að óhætt væri að fjölga um einn.

 Í ljósi þess að þeir flokkar sem nú þegar er verðlaunað fyrir byggja að verulegu leyti á fréttatengdu efni, er mikilvægt að draga fram það sem vel er gert í annars konar blaðamennsku. Því er gerð tillaga um að bæta við aðeins einum flokki, “Viðtal ársins”."