Þriðjungur telur fjölmiðla halda upplýsingum frá almenningi

Mynd/Fjölmiðlanefnd
Mynd/Fjölmiðlanefnd

Meðal niðurstaðna úr nýrri spurningakönnun sem Maskína gerði fyrir Fjölmiðlanefnd er að um þriðjungur aðspurðra telur að fjölmiðlar á Íslandi haldi ítrekað mikilvægum upplýsingum frá almenningi. 9,8 prósent eru „mjög sammála“ og 23,3 prósent „frekar sammála“ fullyrðingunni „Fjölmiðlar halda ítrekað mikilvægum upplýsingum frá almenningi“. 

Þessar niðurstöður – og ýmsar aðrar úr könnuninni – vekja mjög til umhugsunar um þróun trausts til fjölmiðla og annarra mikilvægra stofnana íslensks samfélags, og það hversu móttækilegt fólk er fyrir samsæriskenningum. Þannig tekur nærri helmingur (47,9%) svarenda undir þá fullyrðingu að „íslenskar stofnanir hald[i] meðvitað upplýsingum frá almenningi með því að segja ekki frá því sem þær sannarlega vita“. Og um þriðjungur að „[l]eynileg samtök á Íslandi haf[i] of mikil áhrif á pólitískar ákvarðanir“ og sama hlutfall að „[d]júpríkið [sé] meinsemd sem hefur grafið um sig í íslensku stjórnkerfi“. 

Um þetta segir í niðurstöðuskýrslunni (bls. 7): „Upplýsingaóreiða og dreifing hinna ýmsu samsæriskenninga hefur m.a. þann tilgang að grafa undan trausti á stjórnmálum, fjölmiðlum og stofnunum samfélagsins. Þannig getur upplýsingaóreiða haft neikvæð áhrif á upplýsta umræðu. Þá hafa rannsóknir sýnt að samband er á milli upplýsingaóreiðu og trausts í samfélögum. Þau sem bera lítið traust til stofnana samfélagsins eru líklegri til að láta glepjast af upplýsingaóreiðu. Á Norðurlöndunum, þar sem traust er almennt mikið, getur upplýsingaóreiða verið sérstaklega skaðleg því hún grefur hraðar undan trausti en í ríkjum þar sem traust er lítið fyrir.“ 

Þessu til viðbótar veldur áhyggjum að miklum mun hærra hlutfall svarenda hér á landi upplifa hatursfull ummæli, einelti eða áreiti og hótanir um ofbeldi á netinu en tilfellið er í sambærilegum rannsóknum í næstu grannlöndum Íslands. Í fréttatilkynningu frá Fjölmiðlanefnd segir: „Upplifun á hatursfullum ummælum, einelti eða áreiti og hótunum um ofbeldi á netinu hækkar milli ára á Íslandi í nýrri skýrslu Fjölmiðlanefndar sem nefnist „Upplýsingaóreiða og skautun í íslensku samfélagi.“ Ögranir og/eða háð hafði þá neikvæð áhrif á þátttöku tæplega helmings þátttakenda (43%) í umræðum á netinu. Það veldur áhyggjum að svo hátt hlutfall fólks í samfélaginu upplifi óöryggi í umræðum á netinu og haldi sig að einhverju leyti til hlés.“ 

Norrænn samanburður

Nánar um könnunina: Skýrslan er fyrsti hluti rannsóknar Maskínu fyrir Fjölmiðlanefnd sem lögð var fyrir í nóvember 2022 og nefnist „Hatursorðræða, skautun, upplýsingaóreiða og traust“. Hluti af spurningunum í rannsókninni eru endurteknar spurningar úr fyrri rannsókn sem Maskína framkvæmdi fyrir Fjölmiðlanefnd í febrúar og mars 2021 og nefnist „Miðlalæsi á Íslandi“ (sjá: https://fjolmidlanefnd.is/wp-content/uploads/2021/06/Hluti-2-Falsfrettir-og-upplysingaoreida.pdf og https://fjolmidlanefnd.is/wp-content/uploads/2021/06/Hluti-1-Midla-og-frettanotkun.pdf). Var það gert til þess að fá íslenskan samanburð á gögnum og voru spurningarnar valdar með það í huga að þær styddu við áhersluatriði þessarar rannsóknar sem eru: hatursorðræða, skautun, upplýsingaóreiða og traust. Niðurstöður þessara endurteknu rannsókna veita mikilvæga innsýn inn í hvernig margvísleg mál eru að þróast á Íslandi. Spurningarnar eru að stærstum hluta þýddar og staðfærðar úr rannsóknum sænska SOM-institutet sem tilheyrir Gautaborgarháskóla og úr spurningakönnunum norsku fjölmiðlastofnunarinnar, Medietilsynet. 

Fjallað var um niðurstöður könnunarinnar á málþingi sem haldið var sem hápunktur dagskrár viku upplýsinga- og miðlalæsis í Grósku f.h. í dag, fimmtudag, en hún var einnig til umræðu í Kastljósi á RÚV í gærkvöldi.