Sýna austurískum blaðamönnum samstöðu

Arne König, forseti EFJ
Arne König, forseti EFJ

Forustumenn blaðamannasamtaka í Evrópu sem voru samankomnir á ráðstefnu í Berlin í vikunni hafa sameinast um mótmæli gegn einhliða uppsögn kjarasamninga blaðamanna í Austurríki. Samband blaðaútgefenda í Austurríki (VÖZ) hefur lýst því yfir að það hygðist einhliða segja upp gildandi samningum frá og með áramótum. “Útgefendur eru með þessu að vinna gegn hagsmunum og sjálfstæði blaðamanna í landinu og þar með að vinna gegn almannahagsmunum,” sagði Arne König formaður EFJ á fundi forustumannanna.

Á undanförnum vikum og mánuðum hafa austurrískir blaðamenn komið upp um fjölmörg pólitísk hneykslismál og samtök útgefenda hafa einmitt nýlega gefið frá sér yfirlýsingu um mikilvægi sjálfstæðrar blaðamennsku fyrir lýðræðið.

Fulltrúar á fundi forustumannanna í Berlín sögðu að það væri skömm til þess að vita að útgefendur vildu nú kippa burt lágmarksgrundvelli launa blaðamanna og setja þannig mikinn þrýsting á blaðamenn og samtök þeirra sem fyrir höfðu sýnt umtalsverðan samningsvilja. “Samtök blaðamanna um alla Evrópu styðja við félaga sína í Austurríki,” er haft eftir einum þeirra.

Búið er að koma upp hlekk til að koma mótmælum bein til austurísku útgefandanna og er hann þessi: Smellið hér