Sverrir Þórðarson látinn

Sverrir Þórðarson blaðamaður og handhafi blaðamannaskírteinis nr. 3, lést sl.mánudag, 7. janúar, níræður að aldri.

Sverrir fæddist á Kleppi í Reykjavík 29. mars 1922. Foreldrar hans voru Ellen Johanne Sveinsson húsmóðir og Þórður Sveinsson, prófessor og yfirlæknir á Kleppi. Systkini Sverris voru Hörður, lögfræðingur og sparisjóðsstjóri SPRON; Úlfar, augnlæknir og borgarfulltrúi í Reykjavík; Sveinn, dr. rer.nat., skólameistari á Laugarvatni og síðar prófessor í Kanada; Nína, húsmóðir í Reykjavík; Agnar, rithöfundur og bókavörður, og Gunnlaugur, hæstaréttarlögmaður í Reykjavík.

Sverrir nam rafvirkjun áður en hann gerðist blaðamaður á Morgunblaðinu haustið 1943. Þar vann hann til ársloka 1992 er hann lét af störfum sökum aldurs eftir tæplega 50 ára starf. Sverrir var jafnframt um langt skeið fréttaritari norrænna fjölmiðla hér á landi. Hann tók þátt í félagsstörfum hjá Blaðamannafélagi Íslands og sat um skeið í stjórn félagsins.

Sverrir kvæntist árið 1946 Petru G. Ásgeirsdóttur. Þau eignuðust þrjú börn og lifa tveir synir þeirra, Þórður augnlæknir og Ásgeir blaðamaður. Dóttir þeirra, Ása Steinunn, lést árið 1984. Petra lést árið 1986.

Útför Sverris Þórðarsonar verður gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík föstudaginn 11. janúar og hefst athöfnin klukkan 15.

Árið 2007 kom út viðtalsbók í tilefni af afmæli BÍ þar sem meðal annars var rætt við Sverri. Sveinn Guðjónsson tók viðtalið í bókinni og spurði Sverri m.a. hvort hann hafi gert sér einhverjar sérstakar hugmyndir um blaðamannsstarfið þegar hann byrjaði á Morgunblaðinu og hér á eftir fer lítið brot úr bókinni:

„Ekki aðrar en þær að vera vakandi fyrir smáu sem stóru í þjóðfélaginu og að fylgjast vel með atburðum líðandi stundar. Á þessum árum voru menn ekki með sérsvið í blaðamennskunni, heldur varð maður bara að fjalla um það sem að höndum bar frá degi til dags, skýra frá því sem var í „almennum“ fréttum. Þetta gat spannað heilmikið svið.“

- Það orðspor fer af þér að þú hafir haft afar næmt fréttanef og að það hafi verið þinn helsti styrkur í blaðamennskunni?

   „Nú já? Eigum við ekki bara að orða það svo að „skúbb“ komu öðru hvoru í gegnum tíðina, og sum „skúbbin“ voru bara skratti góð. Þegar ég byrjaði var Morgunblaðið til húsa í Austurstræti, í gamla Ísafoldarhúsinu. Ritstjórnin var á efri hæðinni og það var þröngt um okkur. Þegar ég kom voru þar fyrir Þorbjörn Guðmundsson, sem hafði hafið störf nokkrum mánuðum á undan mér, Ívar Guðmundsson, fréttastjóri til marga ára, og Jens Benediktsson, sem var prestlærður maður, en hann var aðallega í erlendum fréttum. Ritstjórar voru Valtýr Stefánsson og Jón Kjartansson, sem seinna varð sýslumaður og alþingismaður. Sigurður Bjarnason frá Vigur var afleysingaritstjóri. Svo kom ljósmyndari inn, sem hét Friðrik Clausen, seinna kom sjálfur Ólafur K. Magnússon, sem var ljósmyndari blaðsins til margra ára.. Fréttamyndasafn Óla K. er varðveitt á Morgunblaðinu.“

„Á öllum árum mínum á Mogganum voru sjálfstæð vinnubrögð og efnistök í fréttum og þótt vinnudagurinn hafi yfirleitt byrjað með ritstjórnarfundi laust eftir hádegi,voru ritstjórarnir ekki alltaf afskiptasamir. Ég var í innlendum fréttum, til dæmis „bæjarfréttum“ og í gegnum blaðið kynntist ég mörgum góðum mönnum, og mörgum sem voru fréttamenn blaðsins úti um land, sem „tippuðu“ varðandi ýmis mál, sem gátu verið efniviður í góða frétt og þetta kom sér vel í starfinu. Stundum kom ég við í morgunkaffi á hjá valinkunnum mönnum í bænum áður en ég mætti til vinnu til að ræða um það sem efst var á baugi og forvitnast um stöðu mála. Ég átti þá heima í miðbænum, þar sem ég bý enn, og því hæg heimatökin því þessir aðilar voru flestir staðsettir hér í miðbænum. Ég kom til dæmis oft við í Lögreglustöðinni í Pósthússtræti og var í góðu sambandi við menn þar, við yfirmenn lögreglunnar sem og óbreyttar löggur. Ég var líka í góðu sambandi við þá aðila sem höfðu upplýsingar um aflabrögð og sjósókn, svo sem Arnór í Fiskifélaginu.“

- Rekur þig minni til að fólk úti í bæ hafi reynt að hafa áhrif á ritstjórnina, til dæmis stjórnmálamenn eða aðrir áhrifamenn í þjóðfélaginu?

   „Ég varð aldrei var við það, enda kom ég ekki nálægt stjórnmálum eða pólitískum skrifum. Morgunblaðið var á þessum árum tengt Sjálfstæðisflokknum og dró ekki dul á það frekar en önnur flokkspólitísk blöð. En það fór ekkert fyrir brjóstið á mér. Ritstjórarnir sáu um landspólitíkina og bæjarstjórnarmálin. Mig minnir að Valtýr hafi aðallega haft málefni bæjarstjórnar á sinni könnu.. Hann fylgdist vel með í bæjarstjórnarmálunum og hafði áhuga á þeim málaflokki. Þá var alltaf talað um bæjarstjórn og bæjarstjórnarfundi. Svo vöknuðu menn upp við það einn góðan veðurdag að hér var komin borgarstjórn, enda ör þróun og mikil fólksfjölgun í Reykjavík á árunum eftir heimsstyrjöldina og sér ekki fyrir endann á því.“

Í lok viðtalsins kveðst Sverrir líta sáttur yfir farinn veg: „Ég sé ekki eftir að hafa valið mér blaðamennsku að lífsstarfi. Þetta er besti skóli sem hægt er að hugsa sér. Fyrir ungan mann, sem er að fara út í lífið, er ekki hægt að hugsa sér betri skóla en blaða- og fréttamennsku, jafnvel þótt menn hverfi svo síðar til annarra starfa. Blaðamennskan opnar margar dyr, gefur mönnum nýja sýn og vekur ný viðhorf til lífsins og tilverunnar. Ég var svo heppinn að vera á sama vinnustað allan minn starfsferil og á Morgunblaðinu eignaðist ég marga góða vini og reyndar á öðrum blöðum líka.”