"Stórútsala" á svæðisblöðum í Noregi

Bæði samkeppniseftirlitið og fjölmiðlaeftirlitið í Noregi hafa gert athugasemdir við fyrirhugaða sameiningu útgáfufyrirtækjanna Eddu og A-pressen. A-pressen hefur verið alveg sérstaklega sterkt á héraðsfréttablaðamarkaði eða svæðisbundum blaðamarkaði, og í úrskurði frá fjölmiðlaeftirlitinu sem kom fyrir helgi segir að til þess að af samrunanum geti orðið þurfi A-pressen að selja nokkur héraðsfréttablöð. Þetta kemur til viðbótar því að samkeppniseftirlitið var búið að úrskurða um að A-pressen þyrfti að selja tvö blöð. Fjölmiðlaeftirlitið horfir fyrst og fremst til þess að samræða á fjölmiðlamarkaði sé fjölbreytt og að þar ríki fjölræði, en samkeppniseftirlitið hugar hins vegar að rekstri og viðskiptaforsendum markaðarins.

Talsverðar efasemdir eru uppi um að heppilegt sé að efna til stórútsölu á svæðisbundnum miðlum, enda standi kaupendur ekki í röðum, en norsk lög eru mjög skýr varðandi eingarhald og ekki búist við neinum undanþágum frá þessum úrskurði. Norska blaðamannafélagið hefur átt von á að gerðar yrðu kröfur um að A-pressen seldi blöð, en formaður félagsins, Elin Floberghagen, segir mikilvægast í stöðunni að kaupendur séu aðilar sem hafi getu og vilja til að halda úti metnaðarfullum ritstjórnum á þessum blöðum. „Það sem skiptir máli frá sjónarhóli Blaðamannafélagsins er að standa með þeim blaðamönnum sem fylgja með í sölunni frá A-pressen. Við viljum vernda störfin og standa vörð um gæði blaðamennskunnar. Bæði A-pressen og verðandi eigendur á blöðunum sem seld verða bera ábyrgð á því að gæði blaðamennsku minnki ekki og að fjölbreytni og fjölræði haldist," segir Elin Floberghagen í fréttatilkynningu.

Sjá meira hér