Síðsdegisskil á dagblöðum í sparnaðarskyni?

Nokkur umræða er nú í gangi meðal norsks  blaða- og fjölmiðlafólks um leiðir til að halda úti útgáfu dagblaða í erfiðum rekstri og hvaða leiðir séu færar til að halda uppi gæðum í blaðamennskunni sjálfri á tímum sparnaðar og niðurskurðar. Ein leiðin sem byrjað var að ræða um síðast liðið vor þegar Amedia fyrirtækið hóf umfangsmikinn niðurskurð var að flýta skilum á dagblöðum. Raunar var þessi umræða farin af stað í fyrra í tengslum við það að blaðið Norlys flýtti skilum verulega og eru þau nú strax eftir dagvinnu kl 16:00 á daginn. Anders Opdahl ritstjóri hjá Nordlys segir í samtali við vefsíðu norska Blaðamannsins að engin sérstök ástæða sé til að vera að vinna blaðið á kvöldin og í raun sé þa merkilegt að þetta hafi ekki verið gert miklu víðar og miklu fyrr. Hann telur að gæðin á ritstjórnarefninu verði meiri sé það unnið þegar margir eru á vakt á ritstjórninni og fylgjast með síðustu metrunum í uppsetningu og umbroti.

Þessi umræða tengist því hvernig prentútgáfa, netútgáfur og ljósvakamiðlar spila saman í fjölbreyttu og margskiptu fjölmiðlaumhverfi samtímans. Fréttir í dagblöðum eru nú orðið ekki það sem kalla má „running news“ heldur einhvers konar eftirfylgni eða opnun á málum sem bæti við það sem finna má í fjölmiðlagáttum sem opnar eru allan sólarhringinn.

Sjá einnig hér.