Sérstaða EFJ endanlega staðfest

Þó að nokkur andstaða hafi verið við þau áform að aðskilja rekstur EFJ og IFJ með þessum hætti má segja að flestir fulltrúar á ársfundinum hafi skilning á að slíkt væri óhjákvæmilegt. Andstaðan við þessi áform, sem var mest af hálfu Englendinga og Spánverja, byggðist meira á því að skynsamlegt væri að fara sér hægt og nú væri ekki rétti tíminn til þess, meðal annars vegna efnahagslegra erfiðleika í löndum Evrópu sem hafa komið illa niður á starfsskilyrðum blaðamanna. Hraðskilnaðarmenn reyndust hins vegar vera í meirihluta og studdu fulltrúar allra norðurlandaþjóðanna það og þar á meðal Íslendingar.

Um nokkurt skeið hefur verið unnið að því að setja upp sér félag utan um starfsemi EFJ og liður í því var að ráða framkvæmdastjóra til samtakanna en til þessa hafa EFJ og IFJ deilt framkvæmdastjóra og skrifstofu.

Þess er vænst að á næsta ársfundi EFJ liggi í fyrsta sinn fyrir ársreikingar sambandsins sem gefi þá nákvæmari og meira fullnægjandi lýsingu á fjárhagsstöðu sambandsins. Um leið er ljóst að ársþing IFJ, sem verður haldið í Dublin á Írlandi á næsta ári, þarf að móta með skýrari hætti fjárhagslega umgjörð um rekstur IFJ. Það er von þeirra sem stóðu að breytingunni nú að þessar aðgerðir stuðli að skýrari fjárhagslegri ábyrgð hjá báðum samböndum í framtíðinni um leið og EFJ væntir þess að auðveldara verði að fjármagna rekstur þess.

Faglegt og félagslegt samstarf sambandanna ætti eftir sem áður að vera gott og samstaða er um mikilvægi þess að stuðla að því.

Hjálmar Jónsson, formaður BÍ
Sigurður Már Jónsson, varaformaðurBÍ