Ritstjórnarefni kostað eingöngu af framlögum lesenda

Hinn þekkti bloggari, Andrew Sullivan, sem hefur ásamt nokkrum starfsmönnum sínum verið með hina geisivinsælu bloggsíðu “The Dish” og haldið henni úti í tengslum við vefsíðuna “The Daily Beast”, hyggst nú gera áhugaverða tilraun varðandi framleiðslu á ritstjórnarefni á vefnum. Hann og félagar hans hafa stofnað sérstakt fyrirtæki um bloggsíðuna, og “The Dish” verður frá og með febrúar sjálfstæður miðill án auglýsinga og án endurgjalds fyrir notendur en fjármagnaður alfarið með framlögum frá lesendum. Sullivan hefur sagt að hann þurfi um 900 þúsund dali til að fjármagna síðuna á ári, og á tveimur dögum var hann kominn með rúmlega helminginn af því í fyrirframframlög frá lesendum.

Þessi tilraun er mikið rædd meðal fjölmiðlaáhugafólks, einkum vestan hafs, enda hafa margir velt fyrir sér hvernig hægt verði að halda úti sjálfstæðum og óháðum ritstjórnarskrifum í framtíðinni þegar tekjustofnar eru þverrandi fyrir slíka starfsemi. Andrew Sullivan er vissulega “stjörnubloggari” og höfðaði persónulega til lesenda um stuðning þannig að óvíst er hvort aðrir geti leikið þetta eftir. Sumir virðast telja að þetta sé upphafið að endalokum stórbloggara á meðan aðrir telja líkur á að þetta sé skref í átt til framtíðar þar sem hið einfalda samband milli lesanda og blaðamanns (bloggara) er endurvakið – þ.e. að menn borgi einfaldlega fyrir það sem skrifað er og það sem skrifað er sé skrifað með hagsmuni lesandans í huga. Andrew Sullivan segir sjálfur að þetta sé málið, miðillinn verði engum háður nema lesendum – ekki auglýsindum, eigendum eða örum. Hann rifjar upp spakmælið sem segir að ef þú sért ekki að borga fyrir vöruna sem verið er að selja, þá sértu í raun sjálf(ur) varan sem verið er að selja.

Sjá umræðu um málið hér