Nýtt fjölmiðlafrumvarp: Úthlutun í hlutfalli við stærð

Lilja Dögg Alfreðsdóttir lagði fram nýtt fjölmiðlafrumvarp í gærkvöldi
Lilja Dögg Alfreðsdóttir lagði fram nýtt fjölmiðlafrumvarp í gærkvöldi

Úthlutun styrkja til einkarekinna fjölmiðla mun í öllum aðalatriðum verða svipuð því hún var þegar stykjum vegna Covid 19 var úthlutað fyrr á árinu, samkvæmt frumvarpi sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir lagði fram á Alþingi í gærkvöldi. Þetta þýðir að stóru fjölmiðlafyrirtækin munu fá mest úr þeim potti sem til ráðstöfunar verður, og hlutfallslega í samræmi við stærð sína.  Önnur nýmæli í frumvarpinu eru að skilyrði fyrir styrk eru einfölduð þannig að ekki er lengur gerð krafa um útgáfutíðni eða tegund miðils, einungis að miðillinn skuli vera skráður eða hafa leyfi til hljóð- eða myndmiðlunar. Auk þessa skilyrðis eru ýmis tæknileg skilyrði um að staðið hafi verið við skýrslugjöf og skil á opinberum gjöldum og þess háttar.

Í grundvallaratriðum er hugmyndafræðin í þessu nýja frumvarpi sú sama og í fyrri frumvörpum, þ.e. að endurgreiddur er kostnaður vegna launa og verktakavinnu blaða- og fréttamanna, ritstjóra og aðstoðarritstjóra, myndatökumanna, ljósmyndara og prófarkalesara.  Endurgreiðslurétturinn nemur 25% af þessum kostnaði, og er ekkert hámark sett á hugsanlega endurgreiðslu. Þess í stað er kveðið á um að fari samanlögð endurgreiðsluupphæð til allra þeirra sem rétt eiga samkvæmt ákvörðun 3ja manna úthlutunarnefndar upp fyrir það sem fjárheimild er fyrir, þá skerðist útgreiðsla til allra umsækjenda í réttum hlutföllum.  Augljóst er að þetta þýðir að stærstu fyrirtækin munu hreppa bróðurpartinn af styrkjunum líkt og varð í úthlutinni vegna kórónuveiruúthlutunarinnar, en þá fengu Árvakur, Sýn, og Torg, sem flesta hafa í vinnu, lang hæstu upphæðirnar.

Sjá frumvarpið hér