Ný könnun í BNA: Svartsýni á framtíð fréttaflutnings

Fyrir helgina kynnti „American Press Institute“ niðurstöður könnunar meðal um 10.500 manns sem lokið höfðu prófi í blaðamennsku eða fjölmiðlafræði úr 22 háskólum í Bandaríkjunum. Þetta fólk er samkvæmt könnuninni frekar svartsýnt á þá stefnu sem blaðamennska hefur tekið almennt en flestir telja þó að verk þeirra sjálfra séu nú mun betri en þau voru fyrir fimm árum síðan.

Í ljós kom að þrátt fyrir að aðeins um 41% þeirra sem svöruðu vinni beint við fréttir þá líta  stórir hópar sem vinna í öðrum geirum  ennþá á sig sem blaðamenn. Það á t.d. við um  22% þeirra sem vinna í viðskiptalífinu, 16% þeirra sem vinna hjá menntastofnunum og 14% þeirra sem vinna í stjórnmálum eða ráðgjafafyrirtækjum.

Af þeim 36% heildarinnar sem eru í vinnu hjá fjölmiðlafyrirtækjum (ekki free-lance) eru 11% að vinna hjá dagblöðum, 6% á tímaritum, og 3% fyrir útvarp. Einungis 4% þessa hóps vinna hjá fyrirtækjum sem eru eingöngu á netinu.

Í skýrslunni segir að það sé ríkjandi umtalsverð svartsýni um framtíð fréttamiðlunar. Alls eru aðeins um 17% svarenda þeirrar skoðunar að fréttaflutningur haf batnað á síðustu fimm árum en mikill meirihluti, eða 66% telur fréttaflutning hafa versnað.

Þá kemur í ljós að um 57%  svarendanna telur að stærsta vandamálið sem fréttir og upplýsingaflæði standi frammi fyrir núna sé gríðarlegt flæði skoðana og rangra upplýsinga á netinu. Næst stærsta vandamálið er síðan úreltur efnahaggrunnur fyrir fréttir og framleiðslu ritstjórnarefnis.

 Lesa má skýrsluna í heild sinni á pdf-formi hér