Norræni blaðamannaskólinn í Árósum (NJC) lagður niður!

Menningar- og menntamálaráðherrar Norðulandanna hafa ákveðið að hætta stuðningi við Norræna blaðamannaskólann í Árósum frá og með næstu áramótum, eða 1 janúar 2014. Fram kemur í upplýsingum frá Norrænu ráðherranefndinni að ákvörðunin byggir á pólitískri forgangsröðun frá ráðherrum aðildarríkjanna í tengslum við niðurskurð fjárframlaga á næsta ári. Norræni blaðamannaskólinn hafi verið farsæll í starfi sínu og heppilegur samstarfsvettvangur sem hafi gert mikið gagn. Margir tugir íslenskra blaðamanna hafa í gegnum árin sótt aðalnámskeið skólans og hefur skólinn lengi verið helsta tákn um norræna samvinnu á sviði blaðamennsku. "Þessi ákvöðrun kom eins og þruma úr heiðskíru lofti og er mikið áfall," segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands. Hann segir að forusta BÍ hafi verið í sambandi við forustumenn annarra félaga á Norðurlöndum og sameiginlegir fundir séu framundan. "Við munum reyna að samræma viðbrögð og beita okkur sameiginlega í þessu máli," segir Hjálmar. Hann segir þessa ákvörðun sérstaklega slæma fyrir íslenska blaðamenn því Árósarskólinn hafi verið mjög mikilvægur hlekkur í menntun og endurmenntun íslenskra blaðamanna.

Norræna ráðherranefndin hefur ákveðið að leysa strax upp stjórn skólans,  enda sé ljóst að skólinn muni ekki geta starfað áfram á næsta ári.