Newsweek hættir prentútgáfu

Newsweek tilkynnti í gær að prentútgáfa tímaritsins, sem staðið hefur í 80 ár, yrði hætt og þetta fornfræga tímarit yrði nú alfarið á vefnum. Segja má að þetta sé enn eitt táknið um vanda prentiðnaðarins á tímum stafrænnar miðlunar. Newsweek hefur á umliðnum árum verið að berjast við síminnkandi auglýsingatekjur í prentútgáfunni, eins og raunar önnur bandarísk blöð og tímarit, og þurft að horfa á eftir þjóðflutningum lesenda frá prentuðu tímaritinu yfir til hinna meira og minna gjaldfrjálsu frétta á netinu.

Útbreiðsla blaðsins hefur hrunið úr meira en fjórum milljónum eintaka fyrir rúmum áratug og niður í 1,5 milljón í fyrra. Síðasta prentaða útgáfa blaðsins mun koma út þann 31. desember næst komandi. Eins og þekkt er hefur Newsweek komið út í ýmsum útgáfum, bandarískri og og alþjóðaútgáfu, en í tilkynningu fyrirtækisins var ekkert fjallað um það mál að öðru leyti en því að vefútgáfan yrði ein heildstæð afurð.

Sjá einnig hér