Myndskeið af hryllilegu morði blaðamanns talið ekta

James Foley
James Foley

Sérfræðingar stjórnvalda í Bandaríkjunum hafa staðfest að myndband sem sýnir grimmilegt morð  liðsmanna Isis á blaðamanninum James Foley sé ekta. Morðið hefur verið fordæmt víða um heim og það vekur sérstakan ugg í Bretlandi að sá sem talar á myndbandinu virðist tala með breskum hreim og vera breskur.  Philip Hammond utanríkisráðherra Bretlands segir þátttöku  fjölmargra breskra þegna í  baráttu Isis áhyggjuefni sem undirstriki alþjóðlegt eðli málsins – og að Íslamska ríkið sé raunveruleg ógn við öryggi í Bretlandi. Í myndbandinu bregður einnig fyrir myndum af öðrum fanga sem virðist vera bandaríski blaðamaðurinn Steven Sotloff og þeirri mynd fylgir viðvörun og skilaboð  til Baraks Obama um að örlög blaðamannsins velti á viðbrögðum forsetans.

James Foley var mjög reyndur blaðamaður og hafði sagt fréttir af stríðshrjáðum svæðum lengi. BBC tók meðal annars viðtal við hann árið 2012 um mikilvægi fréttaflutnings af átakasvæðum og birtir það viðtal í samantekt um málið sem sjá má hér í heild sinni

Sjá frekari umfjöllun hér og hér