Mótmæla einkavæðingu ríkismiðla í Portúgal

Bæði Alþjóðasamband blaðamanna (IFJ) og Evrópusamband blaðamanna (EFJ) hafa lýst yfirmiklum áhyggjum vegna áforma stjórnvalda í Portúgal um að einkavæða að fullu eða hluta RPT, Ríkisútvarpið í Portúgal. Í síðustu viku lagði ríkisstjórnin fram fjárlagafrumvarp sitt fyrir 2013 og þar er að finna áætlun um lokastig undirbúnings fyrir einkavæðingu RTP. Samkvæmt fjárlögunum og greinargerðinni með þeim er hugmyndin að draga saman framlög til RTP um 42,2% á næsta ári og jafnframt að draga úr styrkjum til hinnar hálfopinberu fréttaveitu Lusa um 30,9%.

RTP er mjög öflugur fjölmiðill í Portúgal með 8 sjónvarpsrásir og 8 útvarpsrásir auk þess að vera þátttakandi í fjölmörgumöðrum sjónvarp- og útvarpsverkefnum með sjálfstæðum aðilum.

Blaðamannafélag í Portúgals hefur fordæmt þessi áform og talar um lýðskrum, talnaleikfimi og rangar upplýsingar sem lið í því að réttlæta þennan gjörning. Ekkert sé gert með sjónarmið stórs hluta þjóðarinnar og spilling sé í spilunum, sem sjáist á því að nú eigi að munstra fyrrum forstjóra Heiniken sem nýjan útvarpsstjóra RTP.

Blaðamannafélag Portúgals segir að sú aðgerð að einkavæða jafnvel bara að hluta útvarps og sjónvarpsstöðina myndi gera það ógerlegt að halda uppi fréttum frá öllum landsvæðum sem tilheyra Portúgal með þeim gæðum sem eðlileg verði að teljast hvað varðar upplýsingar, fræðslu, og menningarlegar skyldur.

„Portúgalskir félagar okkar sem hafa efnt til andófs og mótmæla til að verja RTP geta reitt sig á stuðning og samstöðu frá EFJ,“ segir Arne König forseti Evrópusambands blaðamanna (EFJ). Við styðjum félaga okkar í öllum aðgerðum þeirra sem og í þeim aðgerðum sem farið hafa fram í fréttastofunni Lusa og á dagblaðinu Publico, en þar sjá menn fram á uppsagnir og niðurskurð á komandi vikum. Á tímum samdráttar, þegar lýðræðið sjálft og gildi þess verða fyrir miklum þrýstingi, teljum við mjög óskynsamlegt að skera niður með þessum hætti og þar með takmarka verulega þau tæki og þann farveg sem til er fyrir lýðræðislega umræðu í samfélaginu,“ segir Arne König ennfremur.

Sjá einnig hér