Minna á siðareglur í umfjöllun um Úkraínu

Frá mótmælum í Úkraínu
Frá mótmælum í Úkraínu

 Bæði Alþjóðasamband- og Evrópusamband blaðamanna hafa tekið undir áskorun Rússneska Blaðamannasambandsins, RUJ, þar sem  skorað er á blaðamenn sem eru að fjalla um málefni Úkraínu að  gæta að þeim kröfum sem settar eru fram í siðareglum blaðamanna.  Rússneska blaðamannasambandið (RUJ)  hefur áhyggjur af því að hatursáróður af ýmsu tagi hafi ratað inn í umfjöllun hjá ýmsum rússneskum fjölmiðlum og í fjölmiðlum víða um heim sem fjallað hafa um Úkraínu.  Samkvæmt RUJ eru sumir fjölmiðlar ekki að gæta að grunnskyldum sínum við almenning heldur elta uppi áróður sem í raun stangast á við siðareglur. Af þessum ástæðum hefur sambandið nú óskað eftir því við blaðamenn um allan heim að þeir virði siðareglur og „skrifi og segi sannleikann“ og segja í ákalli sínu:

 „Við skorum á kollega okkar í Rússlandi og um heim allan að muna eftir grundvallarskyldum sínum – að skrifa og segja sannleikann, að vera óháðir ytri þrýstingi  og persónulegum skoðunum þegar þeir leita uppi upplýsingar og segja frá þeim og að leitast við að vinna ekki skaða með vinnu sinni og orðum“.

  Sjá meira hér