"Lítill fundur í litlu félagi"

Jóhann Hlíðar Harðarson
Jóhann Hlíðar Harðarson

 Jóhann Hlíðar Harðarson, fréttamaður hefur sent Press.is grein til birtingar þar sem hann fjallar um síðasta aðalfund Blaðamannafélagsins og framboð sitt þar til stjórnar. Grein Jóhanns Hlíðars er svohljóðandi:

 

 

Lítill fundur í litlu félagi
-Aðalfundur Blaðamannafélags Íslands

  Ég fór á aðalfund Blaðamannafélags Íslands sem haldinn var þ. 10 apríl sl. Ég sat í stjórn þessa ágæta félags um 5 ára skeið í upphafi aldarinnar og gegndi m.a. embætti varaformanns um 2ja ára skeið.

 Ég sneri aftur í fréttamennsku fyrir tveimur árum og hóf störf á fréttastofu RÚV. Þá rifjaðist upp fyrir mér þessi vitleysa (að mínu viti), að hér væru starfrækt tvö félög fyrir blaða- og fréttamenn, annað fyrir RÚVara og hitt fyrir alla hina. Sömuleiðis rifjaðist upp fyrir mér að þreifingar höfðu verið í gangi á milli félaganna, í kringum aldamótin, að reyna að nálgast hvort annað. Þær runnu út í sandinn.

 Við erum æ fleiri innan raða Ríkisútvarpsins sem kjósum að vera í BÍ. Bæði fréttamenn og ekki síður kvikmyndatökumenn.

 Af þeim sökum og eins vegna þess að mér hefur fundist starfsemi Blaðamannafélagsins hafa verið hálfdoðakennd síðustu misserin, ákvað ég að fara á síðasta aðalfund og bjóða fram krafta mína í stjórn félagsins. Ekki það að ég (ef mig skyldi kalla) væri einhver allsherjarlausn á tilvistarvanda félagsins, alls ekki, heldur hitt að ég hef áhuga á faginu, faglegu innihaldi þess, réttindum okkar og hverju því sem að okkur snýr.

 Sem sé, ég fór á aðalfundinn og það sem ég upplifði á þessum fundi var fyrst og fremst sorglegt, í besta falli tragíkómískt.

 Félagið okkar er þokkalega stórt. Í því eru um 600 félagsmenn. Á aðalfund þessa útvarðar tjáningarfrelsis og lýðræðis mættu 18 manns með atkvæðisrétt. Það eru um 3% félagsmanna. Ég var 50 ára gamall þegar fundurinn fór fram (ég hef elst síðan). Ég tilheyrði yngri helmingi félagsmanna!

 Þegar kom að kosningu í stjórn, tilkynnti formaður kjörstjórnar að í ár skyldi kjósa þrjá menn í stjórn. Tveir þeirra sem ganga ættu úr stjórn gæfu áfram kost á sér og einn varamaður gæfi kost á sér sem þriðji maður.

 “Getum við þá ekki litið á þau þrjú sem sjálfkjörin?”, spurði formaður kjörstjórnar. Ekki orð frá honum eða fundarstjóra um að það væri opið fyrir framboð. Ég rétti þá upp hönd og spurði hvort ekki væri hægt að bjóða sig fram. Þeir litu hvor á annan og sögðu svo að jú, víst væri það hægt.

 “Ég býð mig þá fram”.

 “Æi, þurfum við þá að fara að kjósa,” gall þá við í einum og einn frambjóðendanna sagði að hann gæti eins dregið sig tilbaka svo við slyppum við kosningu. Ég gat ekki annað en hlegið og spurði hvort kosning á milli manna hefði einhvern tíma drepið einhvern (kannski óvarlega orðað, en þið skiljið…). Þá spurði fundarstjóri hvort við tveir vildum fara afsíðis og afgreiða þetta. Kyndugt, en aftur ítrekaði ég spurningu mína og skoðun um að kosningar væru nú bara meinhollar fyrir lýðræðiselskandi skepnur. Nú jæja þá, kjósa skyldum við.

Ég man þá tíð þegar menn gáfu kost á sér til stjórnarsetu í BÍ (og miklu víðar raunar) að þá hefur frambjóðendum verið gefinn kostur á því að kynna sig og segja í stuttu máli frá því sem rekur þá í framboð og hverju þeir vilji beita sér fyrir, nái þeir kjöri. Ekkert slíkt var í boði þarna, heldur var atkvæðaseðlum dreift á meðal okkar 18 og svo skyldi kosið. Gall enda við í einum fundarmanna: “Fyrirgefið, en hvað heitir þessi sem var að bjóða sig fram?”

Það þarf ekki að orðlengja það að hinir þrír “opinberu” frambjóðendur stjórnar voru kjörnir til stjórnarsetu, sjálfur fékk ég 11 atkvæði. Einn þeirra sem kjörinn var hafði ekki einu sinni tíma til að sitja þennan aðalfund, en var kjörinn í stjórn að sér fjarverandi. Mér fannst öll þessi framkvæmd líkjast atriði í einhverju fáránleikaleikhúsi og vil endilega biðja stjórn og fundarstjóra komandi aðalfunda um að halda einhverri reisn yfir framkvæmd kjörs í stjórn félagsins.

Svona fór nú þetta. Ég hef ekki misst svefn yfir úrslitunum. Ég reyni bara aftur að ári. Ég hef hins vegar verið nokkuð hugsi yfir hvernig komið er fyrir þessu blessaða félagi okkar. Fyrir u.þ.b. áratug mættu tugir manna á aðalfund og fylltu jafnvel hundraðið. Þegar 18 manns mæta á aðalfund og fimmtugur kall er í hópi yngri fundargesta, þá er eitthvað að. Finnst ykkur það ekki?

Stjórn félagsins (og aðrir) getur leikandi afgreitt þetta greinarkorn sem væl í tapsárum félagsmanni. Þá hefur hún einfaldlega misst af punktinum. Hún getur líka tekið þetta upp til umræðu, litið í eigin barm og spurt sig hvort eitthvað sé að og hvort ástæða sé til að ráða á því bót. Hennar er völin og kvölin.

Félagsmenn geta líka lagt sitt af mörkum til að vekja starfsemi til lífs finnist þeim ástæða til. Svo getur bara líka vel verið að mér skjátlist hrapallega, Altúnga hafi rétt fyrir sér og að allt sé bara í allra besta lagi. 

-Jóhann Hlíðar Harðarson