Julian Assange laus úr fangelsi

Julian Assange á leið til Maríana-eyja. Mynd/Wikileaks/
Julian Assange á leið til Maríana-eyja. Mynd/Wikileaks/"X"

Julan Assange, stofnandi Wikileaks, hefur verið látinn laus úr fangelsi í Bretlandi eftir fimm ára vist án dóms. Samkvæmt upplýsingum frá Wikileaks var hann látinn laus gegn tryggingu eftir að hafa gert samkomulag við bandaríska ríkið um að játa sök vegna ákæru um að hafa brotið gegn bandarískum lögum um birtingu trúnaðargagna. Assange fór úr landi í gær og mun koma fyrir dómara á Maríanaeyjum í Kyrrahafi, sem er bandarískt yfirráðarsvæði, þar sem samkomulagið verður staðfest. Felur það meðal annars í sér að honum beri ekki að sæta frekari refsingu en hann þegar hefur setið af sér, og er því laus að samkomulaginu frágengnu. Hann mun því næst halda til heimalands síns, Ástralíu, þar sem fjölskyldan, eiginkona og tveir synir, bíður hans. 

Áður en Assange var færður í fangelsi var hann í sjö ár í nokkurs konar stofufangelsi í sendiráði Ekvador í London, þar sem hann fékk pólitískt hæli eftir að hafa verið ákærður fyrir brot vegna birtingu trúnaðargagna sem hefðu getað haft í för með sér lífstíðarfangelsisdóm. Gögnin innihéldu meðal annars 700 þúsund skjöl, svo sem myndband af bandarískri herþyrlu sem sýndi bandaríska hermenn skjóta og drepa tugi óbreyttra borgara í Írak árið 2010, þar á meðal tvo starfsmenn fréttastofunnar Reuters.

Ákærunni gegn Assange hefur verið mótmælt af samtökum blaðamanna og mannréttinda víða um heim allt frá því hún var gefin út. Stjórn BÍ hefur m.a. ályktað að með aðförinni gegn Assange sé vegið að tjáningarfrelsinu og ráðist gegn fjölmiðlafrelsi um allan heim. Bent hefur verið á að með fordæminu sem gefið hefur verið geti allir blaðamenn átt yfir höfði sér ákæru um alvarleg brot á lögum birti þeir eitthvað sem bandarískum stjórnvöldum hugnist að skilgreina sem ógn við sína hagsmuni.