Jafnréttisviðurkenningar vegna fjölmiðla

Verðlaunahafar ásamt ráðherra.
Verðlaunahafar ásamt ráðherra.

Ritstjórn Framhaldsskólablaðsins, Halla Kristín Einarsdóttir og Sigrún Stefánsdóttir fengu í dag viðurkenningar Jafnréttisráðs á sviði jafnréttismála vegna fjölmiðlunar.  Tilnefningar Jafnréttisráðs voru veittar í þremur flokkum. 1) Til fjölmiðlis sem skarað hefur fram úr á sviði jafnréttismála.  2) Vegna þáttar, þáttaraðar, greinar eða annars afmarkaðs viðfangsefnis. 3) Til einstaklings sem með störfum sínum á fjölmiðli hefur unnið sérstaklega að jafnréttismálum.

Framhaldsskólablaðið er sá fjölmiðill sem Jafnréttisráð telur hafa skarað fram úr, en blaðið kemur út ársfjórðungslega.  Í umsögn dómnefndar segir: „Á undanförnum misserum hafa birst langar og ítarlegar greinar og viðtöl um kvenréttindi og femínisma, kynjakvóta, #freethenipple hreyfinguna, kvennasögu og kosningarétt kvenna, kynjafræðikennslu á framhaldsskólastigi, druslugönguna, kynbundið kynferðislegt ofbeldi, réttindi fólks með fötlun, hinsegin fólks og flóttafólks. Framhaldsskólablaðið er öflug rödd í jafnréttisbaráttu samtímans, rödd sem vísar okkur veginn til bjartrar framtíðar.“

Halla Kristín Einarsdóttir fékk verðlaun fyrir heimildamyndina „Hvað er svona merkilegt við það?“  Í umsögn dómnefndar segir að í myndinni segi „frá mikilvægu tímabili íslenskrar stjórnmálasögu og er afbragðskynning og hvatning fyrir þær kynslóðir sem nú vaxa upp og lifðu ekki þessa tíma, og fyrir hina eldri er myndin ekki síður stórskemmtileg upprifjun á merkilegum tímum“.

Sigrún Stefásdóttir fyrrum fréttakona og núverandi sviðsforseti hug- og félagsvísindasviðs við Háskólann á Akureyri fékk viðurkenningu fyrir störf í þágu jafnréttis á fjölmiðlum.  Í umsögn dómnefndar segir m.a. að Sigrún hafi átt farsælan feril í íslenskum fjölmiðlum, fyrst sem blaðamaður og ritstjóri og síðar sem fréttamaður, dagskrárgerðarkona og sem yfirmaður í útvarpi og sjónvarpi.  Þá segir að Sigrún hafi lengi fengist við kennslu og að „í kennslu sinni hefur Sigrún ávallt lagt áherslu á að opna augu nemenda sinna fyrir ójöfnu hlutskipti kynjanna í fjölmiðlum.

Viðurkenningin var afhent á Jafnréttisþingi en hér má sjá meira um þingið.