Illugi boðar hugsanlegar aðgerðir í haust

 Illugi Gunnarsson sagði í samtali við RÚV í dag að hugsanlega væri aðgerða að vænta frá ríkisvaldinu varðandi samkeppnisstöðu einkarekinna miðla fyrir kosningarnar í lok október.  Það sem helst kæmi til greina væri breyting á skattaumhverfi eða aðgerðir varðandi stöðu RÚV á auglýsingamarkaði.  Þessi ummæli koma í kjölfar aðgerða sem nokkrar einkareknar stöðvar gripu til í gærkvöldi með 7 mínútna þögn á ljósvakanum. 

Athygli vekur að Illugi telur ekki hljómgrunn fyrir einhvers  konar styrkjakerfi í fjölmiðlun til að tryggja fjölræði og fjölbreytni líkt og tíðkast hefur á hinum Norðurlöndunum, en horfir m.a. til skattaumhverfis og þess að RÚV gefi eftir auglýsingamarkaði. Ýmsir, þar á meðal talsmenn N4 sjónvarpsstöðvarinnar sem ekki tók þátt í aðgerðunum í gærkvöldi, hafa bent á að  það eitt og sér að RÚV dragi saman seglin á auglýsingamarkaði muni helst gagnast hinum risunum á ljósvaka/fjarskipta markaði, þ.e. Símanum og 365 (Vodafone) og þar með gera lítið fyrir fjölræði í fjölmiðlun.  Ráherra nefnir líka skattaumhverfið og stöðu íslenskra miðla gagnvart erlendum risum en það eru sams konar áhyggjur og viðraðar hafa verið í öðrum löndum m.a. Noregi þar sem stjórnendur Aftenposten hafa kvatt sér hljóðs um málið.

Sjá frétt RÚV  um málið hér