Frelsisdagur fjölmiðla

Í dag er alþjóðadagur tjáningar- og fjölmiðlafrelsis. Af því tilefni er rétt að minna á mikilvægi fjölmiðla en víða á blaðamennska undir högg að sækja vegna samdráttar, niðurskurðar og versnandi skarfsskilyrða eins og vakið er athygli á í yfirlýsingu Evrópusambands blaðamanna (EFJ). Þar kemur fram að hart er sótt að blaðamennsku vegna breyttra starfshátta og fjölmiðlunar sem horfir fyrst og fremst til þess að skapa auglýsingum farveg en hefur lítinn faglegan metnað.


„Við höfum áhyggjur af því að þúsundir blaðamanna hafa misst störf sín síðustu mánuði allstaðar í Evrópu, í sumum tilfellum vegna samdráttar en í öðrum tilfellum vegna skipulagsbreytinga. Versnandi starfsskilyrði og lítil fjárfesting í vinnuafli hefur haft umtalsverð áhrif á gæði upplýsingamiðlunar og frelsi fjölmiðla,” segir Arne König, forseti EFJ í yfirlýsingu.


EFJ hefur vaxandi áhyggjur af óöryggi innan stéttarinnar, sérstaklega meðal yngri starfsmanna. Þetta ástand hefur áhrif á fagmennsku, efnahagslegt sjálfstæði og að lokum þá virðingu sem almenningur ber fyrir fjölmiðlum. Jafnvel í hinum ríkari löndum Evrópu er frelsi fjölmiðla áhyggjuefni. Þar hafa samtök blaðamanna varað við því að í þeim miklu breytingum sem eru að verða á fjölmiðlum sé lítil virðing borin fyrir starfi blaðamannsins og starfsskilyrðum hans.


Árið 1991 lýsti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna því yfir að með deginum væri ætlunin að vekja athygli á meginreglum um fjölmiðlafrelsi; að leggja mat á stöðu fjölmiðla í löndum heims; að standa vörð um sjálfstæði fjölmiðla og vera virðingarvottur við fjölmiðlafólk sem týnt hefði lífi vegna starfs síns. Á öllum tímum er sótt hart að fjölmiðlafólki og það getur ekki unnið sín störf án stuðnings og tiltrúar lesenda og almennings.


Blaðamannafélag Íslands fagnar þessum degi um leið og félagið minnir á að víða um heim er daglega brotið gegn lífi og mannhelgi fjölmiðlafólks.