Framhaldsnám boðið í fjölmiðlafræði

Nýtt meistara- og diplómanám í fjölmiðla- og boðskiptafræðum hefst í haust í samstarfi Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri.  Meistaranámið er 12ö0 eininga tveggja ára fullt nám, en diplómanámið er 30 eininga nám sem ætti að vera hægt að stunda með vinnu. Meginmarkmið námsins er sagt ver að auka skilning á flóknu, fjölbreyttu og síbreytilegu fjölmiðlaumhverfi, þar sem stafræn tækni, netið og samfélagsmiðlar skipa sífellt stærri sess í lífi flestra. 

Í skýrslu starfshóps sem undirbjó námið stóð m.a.: „Mikilvægi fjölmiðla í nútímasamfélögum fer sívaxandi. Í samræmi við það vex þörfin og áhuginn á fræðslu og rannsóknum á fjölmiðlum. Alþjóðlegt rannsóknastarf á þessu sviði hefur vaxið mjög, en á Íslandi er brýnt að styrkja rannsóknir á stöðu og áhrifum fjölmiðla. Námið mun auka val nemenda og efla rannsóknir og rannsóknarsamstarf deildanna og skólanna, langt umfram það sem þeir gætu hvor í sínu lagi.“

Öll skyldunámskeiðin eru boðin í fjarnámi, sem og aðferðafræðinámskeiðin fyrir þá sem skrá sig við HA en í HÍ eru þau námskeið tekin í staðnámi. Hægt er að ljúka diplómanáminu alfarið í fjarnámi.

Nemendur beggja skóla sækja sameiginleg fræðileg námskeið, alls 40 ECTS sem boðin verða bæði í fjarnámi og staðnámi. Mikil áhersla er í náminu á þjálfun í rannsóknum og sækja nemendur aðferðafræðinámskeið alls 30 ECTS hver í sínum skóla. Valnámskeið, 24 ECTS  og lokaritgerð 30 ECTS eru einnig tekin í heimaskóla.

Umsóknarfrestur í meistaranáminu er 15.apríl í Háskóla Íslands og 5.júní í diplómanáminu. Í Háskólanum á Akureyri er frestur til að skila umsóknum í bæði meistara- og diplómanámi til 5.júní.

Að náminu standa Stjórnmálafræði- og Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands og Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri. Í námsnefnd meistaranámsins sitja þau Birgir Guðmundsson dósent við Háskólann á Akureyri, Ólafur Þ. Harðarson prófessor við Háskóla Íslands, Ragnar Karlsson aðjúnkt við HÍ og Valgerður A. Jóhannsdóttir aðjúnkt við HÍ.

Sjá kynningarbækling HA hér
Sjá kynningarbækling HÍ hér