Fangelsaður vegna "bangsa"-máls

Hér má sjá bangsa sem hent var niður úr flugvélinni sem rauf lofthelgina.
Hér má sjá bangsa sem hent var niður úr flugvélinni sem rauf lofthelgina.

Alþjóðasamband blaðamanna og Evrópusamband blaðamanna hafa krafist þess að blaðamaðurinn Anton Surapin frá Hvíta Rússlandi verði þegar í stað látinn laus úr fangelsi, en stjórnvöld þar í landi handtóku hann fyrr í mánuðinum fyrir að birta mynd af böngsum sem varpað hafði verið niður úr flugvél yfir Hvíta Rússlandi. Bangsarnir komu frá sænsku auglýsingafyrirtæki og voru áfastir við þá miðar með ýmsum skilaboðum um að styðja bæri við tjáningarfrelsi í Hvíta Rússlandi. Flugvélin sem varpaði niður sænsku böngsunum rauf lofthelgi í Hvíta Rússlandi og er ekki vitað hvernig henni tókst að komast framhjá lofvarnarkerfi hersins. För sænsku vélarinnar er því auðmýkjandi fyrir hermálayfirvöld í Hvíta Rússlandi og grefur undan tiltrú á getu þeirra til að verja landið.

Hlutur blaðamannsins í þessu er hins vegar sá einn að hafa tekið við mynd af þessum böngsum og birt hana á netútgáfu fjölmiðils síns, en blaðamaðurinn er raunar 20 ára gamall nemi í blaðamennsku og birti myndina á vefsíðu fyrir fréttamyndir. Hann hefur nú verið kærður fyrir að aðstoða sænsku vélina við að rjúfa lofthelgi landsins og hefur ekki fengið að hitta fulltrúa blaðamannafélags landsins né fjölskyldu sína. Allt væri þetta mál fáránlegt og jafnvel broslegt ef ekki vægi fyrir þá staðreynd að blaðamaðurinn gæti átt yfir höfði sér 7 ára fangelsisvist.

„Þetta mál væri næstum fyndið ef ekki væri fyrir það að blaðamaðurinn sem í hlut á gæti þurft að gjalda 7 ár af frelsi sínu til að reyna að lappa upp á sært stolt stjórnvalda sem voru auðmýkt með þessum atburði. Það verður einfaldlega að falla frá öllum kæruliðum strax, áður en þetta mál með sinni sérstöku blöndu af gríni og grimmd verður efni í farsa í ætt við myndir Sacha Baron Cohen (Boarat)," segir Jim Boumelha, forseti Alþjóðasambands blaðamanna. Arne König formaður Evrópusambandsins tekur í sama streng og segir: „Þetta mál er áminning um grímulausa valdbeitingu stjórnvalda, sem handtaka stúdent í Minsk fyrri að birta myndir af vandræðalegu öryggismálaklúðri hundruð kílómerta í burtu. Stjórnin á að sleppa Surapin án tafar," segir König.