Fallið frá þaki á styrki til einstakra blaða í Noregi

Útgefendur og starfsfólk á blöðum Dagsavisen og Vårt Land í Noregi anda nokkuð léttar í dag því nýr menningarmálaráðherra, Hadia Tajik, hefur ákveðið að gera breytingar á tillögum um fjölmiðlastyrki og falla frá því að setja þak á styrkveitingar til einstakra blaða. Eins og greint hefur verið frá hér á síðunni áður þá er hugmyndin um að auka styrki til fjölmiðla í landinu um 440 milljónir íslenskra króna, en á móti voru uppi hugmyndir að setja 40 milljón nkr. þak á styrki til einstakra miðla. Hæstu styrkþegarnir í fyrra voru blöðin Dagsavisen og Vårt Land en bæði þessi blöð eru talin hafa mikið gildi fyrir samfélgsumræðuna í landinu og hafa mikið vægi sem slík. Í fyrra voru þau með 38,7 milljónir og 40,1 milljón nkr. í styrki og hefði því lent uppi í þakinu nú. Það sem e.t.v. er áhugavert fyrir Íslendinga að skoða í þessu samhengi er upphæð styrkjanna sem veittir eru til að varðveita fjölbreytni og fjölræði hjá nágrönnum okkar. Þakið sem nú hefur verið fallið frá nemur 880 milljónum króna á miðlil. Heildar beinir styrkir til dagblaða í Noregi námu í fyrra um 6 milljörðum króna.

Sjá einnig hér