EFJ mótmælir hótun AGS

Evrópusamband blaðamanna (EFJ) hefur fordæmt tilraunir fulltrúa Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS) í Grikklandi til að kúga blaðamann til að uppljóstra um heimildarmann sinn. Fulltrúi AGS sagði að blaðið sem blaðamaðurinn starfaði hjá myndi ekki fá neinar upplýsingar frá sjóðnum vegna þess að blaðamaðurinn neitaði að upplýsa um hver heimildamaður hans að frétt væri.

Fulltrúi AGS sem hér um ræðir heitir Bob Tra og var með þessum yfirlýsingum að bregðast við frétt í blaðinu TO VIMA sem Zois Tsolis skrifaði. Í fréttinni sem skrifuð var 24. júní sl. kom m.a. fram að opinberum embættismönnum hefði fjölgað í Grikklandi á síðustu tveimur árum þrátt fyrir að samningur Grikklands við AGS, evrópskar fjármálastofnanir og Evrópska seðlabankann kvæði á um hið gagnstæða.

Blaðamaður Zois Tsolis hafði verið boðaður á fund með fulltrúa AGS og spurður út í hvar hann hefði komist yfir þessi gögn. Blaðamaðurinn vildi hins vegar ekki upplýsa það og brást fulltrúinn Traa þá þannig við að AGS myndi ekki eiga nein samskipti við þetta dagblað, enda nóg af fjölmiðlum sem færu „nákvæmlega og rétt með upplýsingar" sem þeim væru látnar í té.

„Hegðun af þessu tagi hjá háttsettum alþjóðlegum embættismanni er bæði óviðeigandi og ógnandi við fagstétt okkar," segir forseti Evrópusambands blaðamanna, Arne König. „Það að biðja blaðamann um að uppljóstra um heimildamann sinn að réttum og nákvæmum upplýsingum er ekkert annað en aðför að grundvallaratriðum fjölmiðlafrelsisins," segir König enn fremur