DV 100 ára í dag

„Í gær: Austanpóstur kom í gærkveldi. Enginn giftur, dáinn eða jarðsunginn í bænum. Skipaferðir engar.“  Þannig hljómaði innlend smáfrétt  í dálknm "Úr bænum", á forsíðu fyrsta tölublaðs fyrsta dagblaðsins á Íslandi sem enn lifir.  Þetta var í dagblaðinu Vísi fyrir einni öld síðan í dag, þann 14. desember 1910.  Vísir kemur enn út, en hefur verið sameinaður fyrst Dagblaðinu og síðar einnig Degi og hefur blaðið verið gefið út undir heitinu DV frá 1981.

Stofnandi og fyrsti ritstjóri Vísis var Einar Gunnarsson. Hann var enginn nýgræðingur í blaðaútgáfu og gaf m.a. áður út blöðin Landvörn 1903 og Unga Ísland 1905 (5000 eintök). Hann ritstýrði Fjallkonunni nokkra mánuði 1906 og rak  blaðadreifingu í söluturni í miðbænum 1907. Einar  ritstýrði svo  Hugin, árið 1907 –  en það var ekki pólitskt blað  og var e.t.v. forsmekkur af því sem koma skyldi því upphaflega var Vísir ópólitískt fréttablað, eða fram til ársins 1916 þegar Jakob Möller tók við því. Vísir byrjaði fljótlega að birta aðsendar pólitískar greinar. Þegar það var gagnrýnt skrifaði Einar: „Óánægðir eru einhverjir við Vísi út af greinum sem honum hafa borist og hann birt. – Því skal lýst yfir hér í eitt skipti fyrir öll að ritsjórinn tekur ekki á sig aðra ábyrgð á þeim greinum, sem þar standa með dulnefnum, en lagaábyrgðina. Og þó hann sé þeim ósamþykkur finnur hann sig ekki knúðan til að segja sitt álit um þær” (Heimild: Guðjón Fiðriksson, „Nýjustu fréttir“, 2000) Blaðið var unnið við nokkuð frumstæðar aðstæður en það var  handsett og prentað í Prentsmiðju Davids Östlunds í handknúinni flatpressu. Afköst pressunnar voru 200-300 blöð á klst. Upplagið var um 1000 blöð  í upphafi árið 1910 og orðið um 2.866 árið 1912 í 12.000 manna bæ!! Guðjón Friðriksson segir frá því í bók sinni Nýjustu fréttum, að árið 1912  hafi starfmönnum fjölgað og þrír nýir menn verið ráðnir  inn á blaðið: Þetta voru þeir  Guðmundur Guðmundsson skólaskáld sem skrifaði ljóð, sögur og þýðingar frá Ísafirði;  Magnús Gíslason “ljósmyndari” sem var  ráðinn sem fréttaritari eða blaðamaður. Hans fyrsta verk var að faraá reiðhjóli í efnisöflunarferð austur fyrir fjall; og Loftur Gunnarsson, auglýsingamaður(stjóri) sem  hafði samband við kaupmenn og reyndi að selja auglýsingar. Magnús Gíslason lýsti launakjörum á Vísi svona: “Kaupið! Það var ekki borgað kaup í þá daga meira en nauðsynlega þurfti. Auk þess barðist Einar í bökkum með þessa útgáfu sína og gat ekki borgað mikið.... Ég fékk ákveðið fyrir hvern dálk, sem ég skrifaði, en það var víst lítið því ég man það eitt að ég átti erfitt með að bjargast áfram á þessum árum. Það var ekki beinlínis sultur – en það stappaði nærri.” Sjá einnig um sögu DV hér.