Danmörk: Ógn kemur að utan

Tine Johansen, formaður Blaðamannafélags Danmerkur
Tine Johansen, formaður Blaðamannafélags Danmerkur

Framundan er endurskoðun á stuðningi stjórnvalda í Danmörku við fjölmiðla, en ný stjórn hefur boðað nýjar áherslur. Í ljósi þess að hér á landi er verið að vinna að hugmyndum um stuðning við fjölmiðla er áhugavert að skoða grein sem formaður Blaðamannafélags Danmerkur, Tine Johansen skrifaði nýlega um hugmyndir danska félagsins. Greinin birtist í danska veftímaritinu Altinget. Greinin birtist í lauslegri þýðingu hér að neðan.

  

Blaðamannafélagið danska:  Veikt DR mun senda Dani í fangið á Netflix of HBO

Eftir Tine Johansen, fomrann Blaðamannafélags Danmerkur

Nýr menntamálaráðherra, Joy Morgensen, hefur gefið út að ný stefna varðandi fjölmiðlastuðning árið 2020 verði að styrkja almannaútvarp.  Þar með er útgangspunktur stjórnmálanna orðinn allt annar en hann var í tíð fyrri menntamálaráðherra. Það er ástæða til að gleðjast yfir því.

Danska Blaðamannafélgið hefur einmitt ýmsar útfærðar tillögur til að leiðrétta þau mistök og röngu ákvarðanir sem einkenndu margt í fyrri fjölmiðlastefnu. Mig langar til að nefna þrjár.

 Styðja við sjónræna fagþekkingu
Í fyrsta lagi þarf menntamálráðuneytið að koma sér upp sýn og áætlun um það hvernig á að styrkja og styðja danskt fjölmiðlaefni. Þörfin fyrir efni unnið á faglegan hátt hefur aldrei verið meiri en nú til að vega upp á móti uplýsingamengun og misnotkun.

Sú stefna að skera niður um hálfa milljón danskra króna í fjölmiðlastyrkjum einmitt nú, er hreint út sagt galin og í sláandi mótsögn við það sem frændur okkar og nágrannar í Svíþjóð eru að gera, en þar er verið að bæta í fjárframlög til stuðnings fjölmiðlum. Ráðleggingar frá danska Blaðamannafélaginu eru því mjög skýrar: Það þarf að lágmarki að færa efnahagsramma styrkjakerfisins til þess horfs sem var áður en byrjað var að skerða hann.

Stjórnmálamenn verða að átta sig á því að fjölmiðlastyrkir eru fjárfesting í bæði lýðræðislegri umræðu og danskri tungu. Samhliða er nauðsynlegt að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlum.  Það mun styrkja fjölbreytnina að gefa blaðaljósmyndurum og útlitshönnuðum möguleika á að tengjast hinu opinbera styrkjakerfi. Það er Blaðamannafélaginu hjartans mál að styðja við sjónræna fagþekkingu  þar sem sögur fyrir augað eru sagðar í heimi þar sem sjónræn miðlun og blaðamennska verður stöðugt mikilvægari.

Fjölmiðlarisar skattlagðir
Í skýrslu menntamálaráðuneytisins „Hnattvæðing og danskir fjölmiðlar“ frá árinu 2017 var megin niðurstaðan sú, að stærsta ógnin við danska miðla kæmi að utan – frá stóru tæknirisunum s.s. Google og Facebook, sem væru á góðri leið með að sölsa undir sig völdin hvað varðar innihald, ritstjórn og dreifingu fjölmiðlaefnis.  Með gríðarlegum vexti og aukinni útbreiðslu samfélagsmiðlanna er ljóst að framboð lýðræðislegrar umræðu er ekki lengur aðallega hjá faglegum fjölmiðlum og þar með ekki bundin af faglegum sjónarmiðum blaðamennsku um hlutlægni og óhæði.  En jafnvel þótt niðurstöður skýrslunnar hafi verið eins skýrar og raun bar vitni, þá hunsaði þáverandi ríkisstjórn og Þjóðarflokkurinn þær. Þáverandi menntamálaráðherra, Mette Bock vísað málinu frá sér og sagði einfaldlega að þetta væri mál sem ESB þyrfti að leysa.

Niðurstaðan varð að leggja á kvaðir um að þessi fyrirtæki þyrftu aðeins að fjárfesta sem næmi  2 prósentum af danskri veltu sinni í framleiðslu á dönsku fjölmiðlaefni. Það var einungis dropi í hafið og hvergi nærri nóg.

Þegar menn leggja nú af stað í endurskoðun á fjölmiðlastuðningi þarf þessi skýrsla að liggja efst í lesefnisbunkanum hjá öllum sem að málinu koma og tillögurnar sem þar er að finna verður að taka alvarlega.

 Það verður að gera afdráttarlausa kröfu um það að þessir alþjóðlegu fjölmiðlarisar borgi skatt í Danmörku og leggi margfalt meira til fjármögnunar og  framleislu á fjölmiðlaefni.  

  Rétt samhengi hlutanna
Hagsmunasamtök einkarekinna fjölmiðla, „Danske Medier“ hafa á umliðnum árum haldið því að fyrri ríkisstjórn að minna ríkisútvarp (DR) myndi sjálfkrafa þýða að almenningur notaði aðra danska miðla í ríkari mæli. Því miður er þetta ekki þannig, því samhengið er einfaldlega rangt. Það eru engar raunverulegar vísbendingar um slíkt þegar litið er til landa sem fetað hafa þessa slóð.  Verði minna og lakara efni í almannaútvarpi í Danmörku, í útvarpi, sjónvarpi og á netinu, fara notendur ekki og kaupa sér áskrift að dönsku dagblaði. Nei, þeir fara þess í stað í fangið á Netflix og HBO og öðrum erlendum afþreyingarfyrirtækjum.

Stóra áskorunin er því ekki samkeppnin milli danskra fjölmiðla heldur samkeppni frá alþjóðlegum fjölmiðlarisum.  Ég hef miklar væntingar til þess að Joy Mogensen standi við yfirlýsingar um að styrkja almannaútvarp og að hún finni pólitíska leið til þess að koma böndum á samkeppnina frá tæknirisunum og þar með á fjölmiðlalandslag sem verið er að umturna í grundvallaratriðum.