Brussel: Stærsta blaðamannamiðstöðin

Talið er að í Brussel starfi ríflega 900 blaðamenn, hvaðanæva að úr Evrópu. Þar eru að jafnaði fleiri blaðamenn en í Washington sem til þessa hefur verið ein helsta valdamiðja heimsins. Blaðamenn bera gjarnan saman á hvorum staðnum fleiri kollegar eru staðsettir. Fjöldi blaðamanna gefur vísbendingar um mikilvægi Brussel sem stjórnsýslumiðstöðvar Evrópu. Sem gefur að skilja getur verið erfitt fyrir blaðamenn að afla sér upplýsinga meðal allra þeirra sem starfa í Brussel og það tekur talsverðan tíma að átta sig á aðstæðum. Það auðveldar þó störfin að byggingar Evrópusambandsins (ESB) eru flestar á til þess að gera afmörkuðu svæði og mikið er gert af hálfu ESB til að auðvelda blaðamönnum störfin eins og greint verður frá í annari grein hér á press.is.

Í nýlegri ferð íslenskra blaðamanna til Brussel áttu við þess kost að ræða við tvo reynda blaðamenn í Brussel, þá Philippe Richard frá Le Monde og Luke Baker frá Reuters fréttastofunni. Þeir lýstu með skýrum hætti hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í Brussel og sögðu að hverjum blaðamanni væri mikilvægt að byggja upp tengslanet. Á þeim mátti skilja að það gæti tekið allt að tvö ár að komast almennilega inn í málin og vita hvar og hvernig best er að afla upplýsinga. Luke Baker var búinn að starfa í þrjú ár í Brussel en hann hafði áður verið staðsettur í Írak. Hann sagði að það hefði tekið hann tvö ár að ná almennilega utan um hlutina. Hann sagðist hafa notið þess að hjá Reuters starfa 16 manns í Brussel þannig að nýir menn fengju nokkurn tíma til að aðlagast.

Sem gefur að skilja hafa stærstu fjölmiðlarnir bestu aðstæðurnar til að afla frétta og vitaskuld fá blaðamenn athygli í hlutfalli við stærð miðilsins. Þeir Philippe og Luke tóku fram að allir ættu möguleika og nefndu dæmi um blaðamenn smærri miðla sem hefðu náð ótrúlegum árangri við að afla sér frétta.

Fróðlegt var að hlusta á þá lýsa aðstæðum og sérstaklega þeirra ólíku viðhorfa sem ríkja til upplýsingagjafar eftir löndum. Þannig munu finnskir stjórnmálamenn og embættismenn vera duglegir að afhenda gögn enda í samræmi við þá hefð sem er í Finnlandi. Franskir embættismenn afhenda hins vegar engin gögn en það getur kjaftað á þeim hver tuska. Sem gefur að skilja geta menn náð tengslum víða í stjórnkerfinu og byggt upp traust með tímanum.

Það er sem gefur að skilja viðkvæmt að nefna áreiðanleika miðla þegar kemur að umfjöllun um ESB. Viðmælendur í Brussel bentu þó gjarnan á að bresku blöðin og þá sérstaklega götublöðin gerðu mikið úr ágreiningsmálum og flyttu gjarnan nokkuð ýktar frásagnir af lagasetningu ESB. Undantekningar frá þessu væru The Economist og Financial Times þó þau væru vissulega gagnrýnin. Þýsku blöðin væru þó almennt áreiðanlegust og voru Frankfurter Zeitung og Die Welt nefnd til sögunnar.

 

Sigurður Már Jónsson