Blaðamenn kunni á marga miðla

„Breytingin mun hafa í för með sér að talsverður hópur fréttamanna vinnur fréttir fyrir alla miðla fyrirtækisins jöfnum höndum.“ Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá 365 í tilefni af því að fréttastofur fyrirtækisins, fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Fréttablaðsins, verða sameinaðar í eina. Ljóst er að við þetta mun fréttastofum í landinu fækka og um leið fjölbreytni í efnistökum og fréttamati. Umtalsverð samvinna hefur þó verið á milli þessara tilteknu fréttastofa. Í tilkynningunni frá 365 kemur fram ákveðin áherslubreyting gagnvart störfum blaðamanna, sem nú þurfa í auknum mæli að tileinka sér stafróf hinna ólíku miðla. Stjórn 365 segir tvennt vinnast með sameiningunni: „Annars vegar verða blaðamenn sérfræðingar í efni málsins fremur en miðlinum og fjölbreytt þekking þeirra á málum nýtist betur. Hins vegar verður til öflugri sýn á það hvaða hliðum stórra fréttamála er best sinnt í hverjum miðli fyrir sig og miðlarnir vinna saman að því að búa til sterka heildarmynd fyrir lesendur, hlustendur og áhorfendur.“

 Sjá einnig hér