Blaðamannaminni á press.is

Hér á vef  Blaðamannafélags Íslands, press.is, má nú finna Blaðamannaminni, yfirlit yfir íslenska blaðamenn allt frá upphafi blaðaútgáfu á Íslandi 1773 fram til ársins 1960. Yfirlit þetta telur alls tæpa 200 blaðamenn og eru þar sögð helstu deili á þeim ásamt tenglum á ýmis konar ítarefni um þá  er finna má á vefnum.

Tilefni þess að ráðist var í þessa samantekt er að í skjölum Blaðamannafélagsins hjá Landsbókasafni frá því um miðbik síðustu aldar er að finna drög að blaðamannatali, sem unnið var að á árunum milli 1950 og 1960 en varð þó aldrei lokið. Fram kom í fundargerðum að það var jafnframt draumur þeirra sem að þessu verki stóðu að hægt yrði þar að bæta við blaðamönnum frá fyrri tíma en úr því varð ekki.

Með Blaðamannaminnum er reynt að bæta úr þessu en ofmælt er að nefna það blaðamannatal í eiginlegri merkingu vegna þess að það lýtur á að mjög takmörkuðu leyti kröfum um staðlaðar upplýsingar slíkra stéttartala. Ekki er heldur nógsamlega tryggt að yfirlitið geti talist fyllilega tæmandi m.a.  vegna þess  verulegar eyður eru í sögu og fundargerðum félagsins fyrir miðja síðustu öld. Þó hefur verið reynt að að grafast fyrir um sem flesta þá sem komu í einhverjum mæli að blaðamennsku á nefndu tímabili frá 1773 fram á árið 1960. Engu að síður á skilgreiningin yfirlit hér betur við heldur en blaðamannatal vegna þeirra annmarka sem eru á samantektinni. Þess er þó vænst að sækja megi nokkurn fróðleik í þetta yfirlit, jafnframt því sem ábendingar og athugasemdir með viðbótum og lagfæringum eru vel þegnar. Ekki er heldur búið að komast fyrir óverulega tæknilega hnökra í stöku tenglum en það stendur vonandi allt til bóta.

 Björn Vignir Sigurpálsson gerði nánari  grein fyrir tilurð og aðferðarfræði þessarar samantektar í félagsriti BÍ,  Blaðamanninum í desember 2013 á bls. 20.