Blaðamannafélagið 115 ára

Á þessum degi fyrir 115 árum eða 19. nóvember 1897 komu saman fulltrúar nokkurra helstu blaða í Reykjavík og samþykktu að stofna með sér blaðamannafélag. Var félagsstofnunin síðan formlega staðfest hinn 4. janúar 1898 þegar lög voru samþykkt fyrir Hið íslenska blaðamannafélag, nú Blaðamannafélag Íslands.

Helsti forgöngumaður þessarar félagsstofnunar var Jón Ólafsson, ritstjóri, sennilega litríkasti blaðamaður íslenskrar fjölmiðlasögu, en hann var þá tiltölulega nýkominn heim eftir aðra dvöl sína í Vesturheimi. Jón hafði daginn áður sent út bréf til að boða til þessa stofnfundar. Þar stóð:

Stofnbréf BÍ

Það eru vinsamleg tilmæli mín við yðr, að þér vilduð gera svo vel að koma niðr á salinn á Hotel Island (þar sem stúdentafélagið er vant að halda fundi) á föstudaginn 19. nóv. kl. 8 1/2 síðdegis. Tilgangr minn er, að bera upp við yðr tillögu um stofnun blaðamanna-félags, bæði í því skyni að efla hagsmuni stéttar vorrar á ýmsa lund og efla félagslega umgengni og viðkynning blaðamanna á milli.

Skal ég á fundi þessum reyna að skýra fundarefnið ýtarlegar og benda á ýmisleg verkefni, er mér hafa hugkvæmzt sem sennileg viðfangsefni fyrir blaðamannafélag, ef það komist á.

Bréfið stílaði Jón á Hannes Þorsteinsson, útgefanda og ritstjóra Þjóðólfs, Björn Jónsson, útgefanda og ritstjóra Ísafoldar, Einar Hjörleifsson (síðar Kvaran) meðritstjóra Ísafoldar, hjónin Valdimar Ásmundsson, útgefanda og ritstjóra Fjallkonunnar, og Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, útgefanda Kvennablaðsins, Einar Benediktsson, útgefanda og ritstjóra Dagskrár, Þorstein Gíslason, útgefanda og ritstjóra Íslands, og Jón Jakobsson, útgefanda Nýju aldarinnar sem Jón Ólafsson ritstýrði.

Stofnfundurinn var síðan haldinn samkvæmt fundarboðinu og mættu þar allir nema Einar Benediktsson og Hannes Þorsteinsson, en sá síðarnefndi átti þá einmitt í harðvítugum málaferlum við Björn í Ísafold. Þetta bréf Jóns Ólafssonar með fundarboðinu var fært Blaðamannafélagi Íslands til eignar hinn 20. mars 1950 á 100 ára afmælidegi Jóns Ólafssonar af dóttursyni hans, Hákoni Bjarnasyni, þáverandi skógræktarstjóra. Bréfið er nú varðveitt meðal ýmissa annarra skjala blaðamannafélagsins á Landsbókasafninu.

Starfsemi blaðamannafélagsins var skrikkjótt framan af síðustu öld, oft vegna deilna blaðanna og ritstjóra á milli en segja má að samfelld saga félagsins sé til í fundargerðabókum frá því 1942. Skjöl félagsins sem eru varðveitt í Landsbókasafni eru frá tímabilinu upp úr 1930 en þó aðallega frá 1942 til um 1960. Þau eru flest hver úr fórum Jóns Bjarnasonar á Þjóðviljanum sem var formaður félagsins um skeið og lengi ritari þess. Meðal þess sem er að finna í þessu safni er vísir að blaðamannatali sem félagið hefur á þessum tíma verið byrjað að láta taka saman. Prentað hefur verið sérstakt eyðublað sem bæði starfandi blaðamenn og eins nýir umsækendur um aðild að félaginu hafa átt að fylla út. Fylgir það hér til fróðleiks í tilefni dagsins, en rétt að ítreka að það er engan veginn tæmandi þar sem enn vantar margan blaðamanninn í talið sem vitað er að voru starfandi á þessum tíma. Hins vegar eru af hálfu félagsins uppi áform um að gera þar bragarbót á með því að fylla upp í eyðurnar ásamt fróðleik um blaðamenn fyrri tíma.

Til hamingju með daginn, íslenskir blaðamenn!