Ávarp Ban Ki-moon og Irina Bokova

 Umbreytingarnar í Araba-heiminum hafa sýnt hversu sterkt afl felst í þránni eftir réttindum þegar nýir og gamlir fjölmiðlar eru virkjaðir. Nýfengið fjölmiðlafrelsi gefur fyrirheit um umbreytingu samfélaga í krafti gagnsæis og reikningsskila. Það opnar nýjar leiðir til samskipta og til að deila upplýsingum og þekkingu. Öflugar nýjar raddir sem áður fengu ekki að heyrast,  hasla sér völl, ekki síst á meðal hinna yngri.

 Af þessum sökum er Alþjóðadagur fjölmiðlafrelsis í ár helgaður þemanu Nýjar raddir: Fjölmiðlafrelsi í þágu þjóðfélagsbreytinga.

 Fjölmiðlafrelsi er líka ógnað víða um heim. Á síðasta ári fordæmdi UNESCO morð sextíu og tveggja blaðamanna sem týndu lífi vegna starfa sinna. Þessir blaðamenn ættu ekki að gleymast og draga ber fremjendur ódæðisverkanna til ábyrgðar.  

 Fjömiðlun færist í æ ríkari mæli inn á netið og á sama tíma sæta netblaðamenn, þar á meðal bloggarar, ofríki og árásum og eru jafnvel drepnir starfa sinna vegna. Þá verður að vernda rétt eins og starfsmenn hefðubundinna fjölmiðla.

 Stofnanir Sameinuðu þjóðanna þinguðu í fyrsta skipti um Öryggi blaðamanna og refsileysi ofsækjenda þeirra 13. og 14. september 2011. Þar var tekin saman áætlun um hvernig Sameinuðu þjóðirnar gætu skapað frjálsara og öruggara umhverfi fyrir blaðamenn og fjölmiðlastarfsmenn hvarvetna í heiminum.

Á sama tíma munum við halda áfram að styrkja lagalegar stoðir frjálsrar, margradda og óháðra fjömiðla, sérstaklega í ríkjum sem ganga í gegnum umbreytingar eða endurreisn eftir átök. Við verðum sérstaklega að leggja ungu fólki lið til þess að þróa með sér gagnrýnt viðhorf og fjölmiðlalæsi, nú á tímum upplýsinga-ofgnóttar.  

 Alþjóðadagurinn er okkar tækifæri til að draga fánann að húni í baráttunni við að efla fjölmiðlafrelsi.

 Við hvetjum ríki, atvinnufjölmiðla og óháð félagasamtök til að taka höndum saman við Sameinuðu þjóðirnar í þeirri viðleitni að efla tjáningarfrelsi jafnt á netinu sem utan þess í samræmi við alþjóðlega viðurkennd grundvallarsjónarmið. Þetta er hryggjarstykki einstaklingsréttinda, grunnur heilbrigðra samfélaga og afl í þágu félagslegra breytinga.

 Ban Ki-moon og Irina Bokova