Athyglisverð sýkna í Hæstarétti

 DV og Reynir Traustason, fyrrum ritstjóri blaðsins, hafa verið sýknuð í Hæstarétti af stefnu Söru Lindar Guðbergsdóttur vegna umfjöllunar blaðsins um hana í desember 2012. Hæstiréttur snéri með þessu við ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur, sem dæmdi Reyni og blaðið til að greiða Söru Lind 300 þúsund krónur í miskabætur og 621 þúsund króna málskostnað. 

Það sem einkum  tvennt sem vekur athygli í þessu máli fyrir blaðamenn. Annars vegar er það skilgreining Hæstaréttar á opinberri persónu sem telja verði eðlilegt  að fjallað sé um í fjölmiðlum. Sú skilgreining er nokkuð víðari en héraðsdómur hafði. Hitt atriðið er sú mikla breyting sem hefur orðið á túlkun réttarins frá t.d. Bubbamálinu fyrir tæpum áratug á því hvernig skoða beri fyrirsagnir og samhengi fyrirsagna á útsíðum og meginmáls greina inni í blaðinu. Í þessum dómi segir rétturinn að horfa beri til slíks samhengis, en í Bubbamálinu á sínum tíma var einmitt dæmt fyrir forsíðufyrirsagnir.  Þetta kemur vel fram í eftirfarandi kafla úr samantekt Hæstaréttar á dómi sínum:

Hæstiréttur taldi að meginefni greinarinnar hefði varðað ráðningu Söru Lindar í starf yfirmanns hjá stærsta stéttarfélagi landsins og hefði umfjöllun um það efni átt erindi til almennings. Var talið að Sara Lind yrði af þeim sökum að þola að einkamálefni hennar hefðu verið gerð að umtalsefni í fjölmiðli að því marki sem þau tengdust ráðningu í þetta starf.

Hæstiréttur vísaði til þess að við úrlausn málsins yrði að virða fyrirsagnir, sem dómkröfur Söru Lindar sneru að, í samhengi við greinina og láta ekki við það sitja að horfa einangrað á þau ummæli, sem Sara teldi fela í sér meiðyrði í sinn garð. Taldi rétturinn að þau ummæli, sem fram komu í fyrirsögnunum tveimur á forsíðu blaðsins, gætu ekki talist móðgandi í garð Söru Lindar þegar virt væru í heild ummælin, samhengi þeirra við önnur ummæli á forsíðu blaðsins og ummæli á innsíðum þess og að það, sem sagt var, var rétt. Voru Reynir  og DV ehf. því sýknuð af kröfum Söru Lindar.

Sjá dóm Hæstaréttar hér