Asbjørn With hlýtur Cavling-verðlaunin

Það var blaðamaðurinn Asbjørn With hjá Nordjyske Medier sem vann til dönsku Cavling-verðlaunanna þetta árið. Verðlaunin voru veitt nú í upphafi árs við hátíðlega athöfn í Bókasafnssalnum í Sívalíturninum í Kaupmannahöfn. Það var danski forsætisráðherrann Helle Thorning-Schmidt sem afhenti verðlaunin.

Asbjørn With er heiðraður fyrir skrif sín um starfsemi Rebild sveitarfélagsins og hvernig því hafði mistekist að takast á við misnotkun barna, staðið fyrir þvingunarfangelsun og brugðist þegar kom að aðstoð við fatlaða. Það sem vekur athygli er að Asbjørn With starfar á héraðsfréttablaði en blaðamenn þaðan eru alla jafnan ekki að fá mikla athygli. Hann hóf skrifin um Rebild og ástandið þar fyrir nokkru síðan og hefur skrifað yfir 130 greinar um ástandið. Að lokum fékk það mikla athygli landsmálafjölmiðlanna og nokkrir starfsmenn sveitarfélagsins hafa orðið að segja af sér.

Í ræðu sinni vék formaður dómnefndar Kurt Strand sérstaklega að því að Asbjørn With hefði orðið að skapa sjálfur þær aðstæður að hann gæti unnið fréttirnar og hefði verðlaunanefndin horft sérstaklega til þess.

Cavling-verðlaunin eru veitt árlega til blaðamanns eða hóps blaðamanna sem taldir eru hafa staðið sig sérstaklega vel. Þau eru kennd við blaðamanninn Henrik Cavling (1858-1933) og voru veitt í fyrsta sinn 1944.

Að þessu sinni voru átta blaðamenn tilnefndir; frá Zetland, TV 2, DR og Nordjyske Medier og Politiken.