Álag á ítalska blaðamenn

Tutti in casa, yfir forsíðuna. Skilaboð til ítölsku þjóðarinnar að vera heima.
Tutti in casa, yfir forsíðuna. Skilaboð til ítölsku þjóðarinnar að vera heima.

Ítalskir fjölmiðlar hafa reynt sitt besta til að halda almenningi á Ítalíu upplýstum um þróun COVID19 veirunnar  en eins og kunnugt er hefur ekkert land fari verr út úr smiti. Ástandið hefur aukið þörf fólks fyrir áreiðanlegar og upplýsandi fréttir um ástandið og blaðalestur því aukist. Þrátt fyrir lokun hefur blaðastöndum, sem eru velþekktir í evrópskum stórborgum, verið leyft að vera áfram opnir. 

Fjöldi blaðamanna hefur hins vegar smitast og fjölmiðlar hafa átt erfitt með að halda skrifstofum sínum opnum. Þannig neyddist La Stampa stórblaðið til þess að loka skrifstofu sinni í Tórínó fyrir stuttu. Það gerðist í kjölfar þess að veikin greindist meðal blaðamanna og reynt verður að sótthreinsa skrifstofuna áður en haldið verður áfram. 

Blaðamenn reyna sem best þeir geta að vinna heima og annað stórblað, Corriere della Sera, hefur sent alla sem geta unnið heima, heim til sín. Ríkissjónvarpsstöðin Rai hefur reynt sitt besta til að senda út frá verstsettu svæðunum á Norður-Ítalíu en það hefur haft það í för með sér að nokkrir blaðamenn hafa veikst, sama má segja um blaðamenn frá Sky TG24 og Mediaset.

Fjölmiðlar hafa reynt að herða varúðarráðstafanir en oft er óhjákvæmilegt að blaðamenn eða ljósmyndarar fari á vettvang. Ekki er hægt að afgreiða allt í gegnum síma eða samskipti á samfélagsmiðlum. Ítalskir fölmiðlar hafa undanfarið í auknum mæli treyst á lausafólk sem hefur lítil sem engan veikindarétt hjá atvinnurekanda sínum.