Áhugaverð námskeið NJC í haust

Ástæða er til að vekja athygli íslenskra blaðamanna á þremur námskeiðum sem boðið er upp á í Norræna blaðamannaskólanum(NJC) í Árósum í haust.   Um er að ræða fjölbreytt og misjanflega ítarleg námskeið og hægt að fá einhverja styrki úr sjóðum BÍ til að dekka hluta af kostnaði. Námskeiðin eru þessi:

Frá Evrópu til Íslands: Árósar –Brussel – Reykjavík. Þetta námskeið beinir kastljósinu að samfélagsmiðlum og hvernig hægt er að nota þá til að fylgjast með norrænum stjórnmálum bæði í innanlands pólitík og á norrænum og evrópskum vettvangi. Dagsetninga þessa námskeiðs er frá 12. – 31. október.  Sjá einnig hér 

Rannsóknarblaðamennska í nærumhverfinu.  Skoðuð verður sérstaklega rannsóknarblaðamennska í smærri samfélögum, Grænlandi, Færeyjum og Íslandi. Fengnir verða blaðamenn frá þessum vestnorrænu ríkjum til að fjalla um efnið og námskeiðið endar svo með því að farið verður á heimsþing rannsóknarblaðamanna, Global Investigative Journalism Network, í Lillehammer í Noregi  8.-11. október. Nánari upplýsingar verða veittar á heimasíðu NJC á www.njc.dk  síðar.

Þá verður haldið sérstakt málþing fyrir menningarblaðamenn um norrænu skáldsöguna (reifarann) sem hefur yfirskriftina „Hin norræna skáldsaga- spegill samtíðar“.  Þetta málþing fer fram í Gautaborg dagana 22.-27. október og verður í leiðinni heimsótt bókamessan þar í borg sem fram fer á þessum tíma og er sú umfangsmesta á Norðurlöndum.  Sjá einnig hér