(Af)staða blaðamanns í fréttum?

Sean Spicer, blaðafulltrúi Hvíta hússins
Sean Spicer, blaðafulltrúi Hvíta hússins

Fjörug umræða á sér nú stað í hópi blaðamanna vestan hafs og raunar miklu víðar um stöðu blaðamanna í fréttaflutningi.  Geta og eiga blaðamenn að vera hlutlægir í nálgun sinni og sýna hlutleysi í umfjöllun sinni? Þessi umræða sprettur upp í kjölfar ágengrar afstöðu Donalds Trump Bandaríkjaforseta gagnvart fjölmiðlum og umræðu um „valkvæðar staðreyndir“ og fleira í þeim dúr. Gott dæmi um þetta er umræða sem skapast hefur í kringum brottrekstur Lewis Wallace, blaðamanns á „Marketplace“ sem birti pistil á síðunni „Medium“ undir yfirskriftinni „Objectivity is dead, and I’m okay with it“ , sem gæti útlagst á íslensku sem "Hlutlægnin er dauð og ég sætti mig við það". Þar heldur Wallace því fram að hlutleysi sé tálsýn, og vitnar þar til  reynslu sinnar sem trans-gender blaðamanns og að menn verði einfaldlega að horfast í augu við það.  Hann uppskar hins vegar brottrekstur frá „Marketplace“ á þeirri forsendu að í siðareglum miðilsins væri skýrt kveðið á um að starfsmenn verði að halda pólitískum skoðunum sínum fyrir fyrir sig.  Síðan birti Wallace annan pistil þar sem hann segir að að fjölmiðlar verði að breytast þannig að pláss sé fyrir ólíkar raddir sem búi til þá fjölbreytni sem miðlar segist vilja sýna.

Þessi umræða hefur vakið talsverða athygli enda kemur hún inn á grundvallarspurningar fyrir bandaríska blaðamenn rétt eins og kollega þeirra um allan heim, m.a. hér á Íslandi. Í því samhengi má minna á 5. gr. Siðareglna BÍ, en þar segir m.a.: „Siðareglur þessar setja ekki hömlur á tjáningarfrelsi blaðamanna sem skrifa undir fullu nafni afmarkaða þætti í fjölmiðlum, til dæmis gagnrýni, þar sem persónulegar skoðanir höfundar eru í fyrirrúmi.“  Einnig má benda á innanhússreglur RÚV en þar segir: „Starfsfólk, sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni og dagskrárgerð tekur ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólitísk málefni eða umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni, þ. á m. Á samfélagsmiðlum.“

Margaret Sullivan hjá Washington Post er ein þeirra sem fjallar um þetta mál og bendir á að þarna séu á ferðinni gamlar og mikilvægar spurningar sem enn eigi eftir að ræða talsvert en aðstæður hafi nú skapað umhverfi þar sem þessi álitamál eru enn á ný komin í sviðsljósið.

Sjá pistil Margaret Sullivan hér